Misvísandi upplýsingar um stöðu bankans

Björgólfur Guðmundsson.
Björgólfur Guðmundsson. mbl.is/Kristinn

Viðskiptavinir Landsbankans í Lúxemborg fengu misvísandi upplýsingar um lausafjárstöðu og fjárfestingastýringu hans þegar þeim voru seld umdeild veðlán. Tilboðið til lántakendanna var fyrst og fremst til þess fallið að útvega bankanum sem var í lausafjárkreppu fé. Þetta kemur fram í ákæru fransks rannsóknardómara gegn stjórnendum Landsbankans.

Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi aðaleigandi Landsbankans, og Gunnar Thoroddsen, fyrirverandi yfirmaður í bankanum í Lúxemborg, eru á meðal níu fyrrverandi stjórnenda bankans sem rannsóknardómari í Frakklandi hefur ákært vegna lána sem bankinn veitti fyrir hrun.

Í ákærunni segir að viðskiptavinir bankans hafi verið prettaðir með röngum upplýsingum um lán sem þeim var boðið. Niðurstaða rannsóknarinnar í Frakklandi er að bankinn hafi boðið auðugum viðskiptavinum, sem flestir eru ellilífeyrisþegar, veðlán í fasteignum sínum sem voru að hluta bundin í fjárfestingum. Viðskiptavinirnir fengu aðeins fjórðung lánsins í reiðufé en afgangurinn var færður í eignastýringu.

Ávöxtunin af fjárfestingunni átti að standa að fullu undir afborgun af veðláninu sem var á gjalddaga við lok lánstímans. Þegar bankinn féll árið 2008 voru hundruð viðskiptavinir krafðir um uppgreiðslu á láninu. Hópur þeirra höfðaði mál gegn bankanum fyrir að hafa selt þeim fjármálaafurð sem skilaði ekki því sem lofað hafði verið og fyrir að hafa ekki kannað getu lántakenda til að standa undir afborgunum ef til vandræða kæmi.

Í frétt AFP kemur fram að franski rannsóknardómarinn Renaud van Ruymbeke telji að Björgólfur hafi haft beina aðkoma að störfum dótturfyrirtækis Landbankans í Lúxemborg. Hann hafi verið sá sem hafi átt að hagnast mest af veðlánastarfsemi dótturfélagsins í Lúxemborg.

Áhættufjárfestingastýring bankans hafi verið skipulögð og framfylgt í fljótfærni og eingöngu með hagsmuni hluthafa og stjórnenda bankans í huga.

Fyrri frétt mbl.is: Björgólfur ákærður í Frakklandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert