Hlaupið gæti brotist undan í kvöld

Frá Skaftárhlaupi í lok júní árið 2010.
Frá Skaftárhlaupi í lok júní árið 2010. Rax / Ragnar Axelsson

Allar líkur er á að hlaupið brjótist undan jöklinum í nótt eða í fyrramálið, jafnvel í kvöld.

Eftir að hlaupið hefur brotist undir jaðri jökulsins líða um sex klukkustundir þar til hlaupið nær að Sveinstindi, fyrstu mælistöð Veðurstofu Íslands. Gert er ráð fyrir að rennsli úr katlinum, Eystri-Skaftárkatli, fari á fullt í dag.

Tómas Jóhannesson, jöklafræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir líklegra sé að hlaupið brjótist undan í nótt eða í fyrramálið. Þó sé mögulegt að það verði fyrr, eða í kvöld, ef hlutirnir gerist hratt.

Frétt mbl.is: Skaftá vatnsmikil þessa dagana

„Það er aðeins misjafnt eftir hlaupum hvort þetta vex á hálfum sólarhring eða rúmum sólarhring upp í hámark. Ef við gerum ráð fyrir að þetta byrji í nótt eða í fyrramálið, þá myndi ég giska á að hámarkinu yrði náð á föstudag, aðfararnótt föstudags eða á föstudaginn, ef þetta er stórt hlaup,“ segir Tómas í samtali við mbl.is.

„Það er hugsanlegt að hlaupið byrji í nótt og vaxi á hálfum degi upp í hámark, sem yrði þá um miðjan dag á morgun. Ef hámarkinu er náð snemma verður hlaupið lengra og öflugt,“ segir Tómas en þá gæti verið mikið nokkuð mikið rennsli í Skaftá í tvo til þrjá daga.

Frétt mbl.is: Urðu innlyksa vegna hlaupsins

Vísindamenn Veðurstofu Íslands eru á svæðinu og fylgjast þeir grannt með stöðu mála. „Við vitum að það er ekkert að sjá í ánni enn,“ segir Tómas.

Veðurstofa Íslands rekur þrjá vatnshæðarmæla í Skaftá (við Sveinstind, Skaftárdal og Kirkjubæjarklaustur) og einn í Eldvatni við Ása. Það tekur hlaupið 4–5 klst. að fara á milli mæla við Sveinstind og í Skaftárdal (40,3 km). Við upphaf hlaups berst hlaupið frá mæli í Skaftárdal að mæli í Eldvatni við Ása á 4–5 klst. (18,5 km). 

Skaftárhlaup.
Skaftárhlaup.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert