Orðspor greinarinnar í hættu

Básar gyltna voru allt niður í 50cm breiðir. Úr samantekt …
Básar gyltna voru allt niður í 50cm breiðir. Úr samantekt á eftirliti með svínabúum 2014.

Ekkert svínabú á landinu sem slátrar 200 grísum eða fleiri á ári uppfyllir allar gildandi reglur um aðbúnað við svínarækt. Frestur svínaræktenda til þess að skila kostnaðarmati og tímasettri umbótaáætlun fyrir þau atriði sem þar vantar upp á rennur út á morgun. Heimilt er að veita frest til allt að tíu ára, til fimm ára í senn.

Fram hefur komið að legusár fundust á gyltum á öllum þeim svínabúum sem voru könnuð af Matvælastofnun árið 2014 og alvarleg tilvik greind þar sem gyltur voru haldnar á allt of þröngum básum. Í reglugerð frá 2014 er þess krafist að velferð dýranna sé tryggð m.a. með því að þau geti laggst niður og hvílst. Þóra J. Jóhannsdóttir, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, segir stofnunina taka því fagnandi að ræktendur fái ekki frestað að uppfylla nýju kröfurnar nema að þessu ákvæði uppfylltu.

„Matvælastofnun hefur sent út ítrekað áminningar um þennan frest og það hvað felst í því að dýrin hafi nægjanlegt rými,“ sagði Þóra. „Þegar við verðum vör við frávik þá er það skráð og gerð krafa um úrbætur. Ef atvikið er það alvarlegt að við teljum ekki að úrbætur geti beðið og tafarlaust verði að koma dýrinu til hjálpar þá krefjumst við úrbóta á staðnum að eftirlitsmannu viðstöddum. Aðrar úrbætur fá frest og þá er tímalengd stillt eftir alvarleika fráviksins og því er fylgt eftir með nýjum heimsóknum. Bregðist eigandi ekki við er öðrum ákvæðum sem Matvælastofnun hefur fengið heimild til beitt, s.s. framleiðslustöðvun, bann við fjölgun á dýrum og þess háttar. Sé nauðsynlegt að koma dýrinu til hjálpar strax þá er gerð t.d. krafa um að dýrið sé flutt eins í tilfelli þröngu básanna en dýr hafa einnig verið send til slátrunar eða aflífunar eða aflífuð á staðnum.“

Með lögum frá 2014 öðlaðist stofnunin fleiri úrræði sem beita má til þvingunar ef frávik finnast frá reglum um dýrahald. Heimilt verður að beita dagsektum þegar reglugerð þar að lútandi tekur gildi.

Misjafnlega vel stödd bú

Aðstæður á búum eru misjafnar og þrátt fyrir að frávik hafi verið greind á öllum búum sem könnuð voru í fyrrnefndri úttekt er umfang þeirra mjög breytilegt. Sum bú komast nokkuð nærri því að uppfylla skilyrði á meðan staðan á öðrum er mjög slæm. Eftir úttektina árið 2014 er eitt mál komið í þvingunarferli hjá Matvælastofnun. Litið er á dýravelferðarmál sem viðkvæm persónuleg mál ræktenda og því hefur stofnunin ekki greint frá því á hvaða búum ástandið sé slæmt.

Í ársskýrslu Matvælastofnunar 2014 kemur fram að ítrekað hafi greinst í íslenskum svínum kregða (sýking í lungum) og langvinn bólga í brjósthimnu og gollurhúsi við slátrun. Þóra segir margt koma til sem orsaki þetta. „Þetta er fjölþætt vandamál sem getur orsakast af aðbúnaði og umhverfi sem og þéttleika dýranna. Þetta getur loðað við viss bú og valdið endurteknum sýkingum sem reynist erfitt að ná úr húsi. Þetta eru meginþættirnir en við vitum að á sumum búum er þetta hverfandi vandamál og á öðrum búum talsvert meira. Þar sem þetta er mest getur þetta verið heilsufarsvandamál og það er stöðugt fylgst með þessu og eftirlitið vinnur með sláturhúsum í því. Það samstarf stendur til að efla enn frekar svo eftirlitið sé enn betur meðvitað um þau vandamál sem koma fram við slátrun og getur þá komið með fyrirbyggjandi ráðleggingar og aðstoðað framleiðendur við að vinna bug á sýkingunni.“

Hefur áhyggjur af orðspori greinarinnar

Hörður Harðarson, formaður Svínaræktarfélags Íslands, segir það ljóst af nýlegri umfjöllun að dæma að ekki hafi verið hugað nægilega vel að velferð svína í rækt hér á landi. „Ég hef verulegar áhyggjur af orðspori greinarinnar en það sem kemur þarna fram er mjög slæmt. Ég tel það samt ljóst að í svínarækt eins og annarri búfjárrækt er talsverður breytileiki á milli búa og erfitt að meta greinina sem eina heild. Eftirlitsaðilar eru í bestri færir til þess að dæma um þetta en á heildina litið er ljóst að það þarf að gera betur.

Það hefur verið gerð úttekt af Rannsóknarmiðstöð landbúnaðarins þar sem m.a. er gerð kostnaðaráætlun á hverju búi og fyrir landið í heild fyrir þær framkvæmdir sem krafist er að verði gerðar. Það hefur ýmislegt verið gert og ég vona að bændur séu að takast á við þau frávik sem koma fram hjá Matvælastofnun og ef það er ekki gert þá hefur stofnunin úrræði til þess að bregðast við því.“

Aðbúnaður sums staðar óforsvaranlegur

Hörður segir að þegar umræðan komist á þetta stig geti það haft mjög alvarlegar afleiðingar. Fyrst beri þó að taka á þeim atriðum sem lúti að velferð dýranna. „Ég yrði síðastur manna til þess að réttlæta það þegar t.d. gyltur eru haldnar í allt of litlum básum og þau sár sem við höfum séð í fjölmiðlum eru alls ekki ásættanleg.“ Hann segir bústofninn þó hafa breyst töluvert á síðustu árum og gylturnar stærri en áður var. Bóg- og legusár séu tíðari á ákveðnum tímum og hjá ákveðnum kynjum svína auk þess sem horuð svín séu viðkvæmari en annars. Sú krafa sé gerð til bænda að huga vel að undirlagi þar sem gyltur liggja, sérstaklega í gotstíum.

Bógsár. Úr samantekt á eftirliti með svínabúum 2014.
Bógsár. Úr samantekt á eftirliti með svínabúum 2014. Matvælastofnun
Óeðlilega horaðar gyltur. Úr samantekt á eftirliti með svínabúum 2014.
Óeðlilega horaðar gyltur. Úr samantekt á eftirliti með svínabúum 2014. Matvælastofnun
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert