Skaftá vatnsmikil þessa dagana

Börn fylgjast með Skaftárhlaupi í ágúst 2005.
Börn fylgjast með Skaftárhlaupi í ágúst 2005. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Skaftá er vatnsmikil þessa dagana eftir leysingar sumarsins og rigningar síðustu daga. Ef hlaupið sem er á leið úr Eystri-Skaftárkatli verður stórt bætist það við vatnsflauminn og gæti því orðið nokkuð fyrirferðarmikið. Þetta segir Gísli Halldór Magnússon, bóndi á Ytri-Ásum við Eldvatn.

Áður en hlaupið kemur að Ytri-Ásum fer það framhjá tveimur mælistöðvum Veðurstofu Íslands, við Sveinstind og í Skaftárdal. Í Skaftárdal rennur hluti Skaftár í Svínadalsvatn og síðar í Eldvatn og er það vatnið sem rennur framhjá bæ Gísla Halldórs. Einnig er mælistöð við Ása í Eldvatni og sú fjórða er á Kirkjubæjarklaustri.

Frétt mbl.is: Urðu innlyksa vegna hlaupsins

Ytri-Ásar standa um 60 metrum frá árfarveginum en bærinn stendur aftur á móti hátt uppi og því er ólíklegt að vatnið muni ná að bænum. Áhrif hlaupanna hefur þó gætt víða enda fylgir þeim sandur og leðja sem flæðir yfir hraun og tún.

Síðustu hlaup komu ofan í lítið vatn

„Þessi hlaup hafa áhrif allsstaðar nálægt farveginum. Þetta fer út um allt og kaffærir öllu í sandi og leðju. Síðustu hlaup hafa yfirleitt komið ofan í mjög lítið vatn, þó að það hafi verið stór hlaup hefur ekki verið jafn mikil fyrirferð á þeim,“ segir Gísli Halldór í samtali við mbl.is.

„Ef það kæmi stórt hlaup núna, sem maður býst alveg eins við þar sem það eru fimm frá síðasta hlaupi úr eystri katlinum, þá getur orðið mikil fyrirferð á því.“

Leðjan og sandurinn fer ekki aðeins út á hraunin og svæðið í kring, heldur brýtur hlaupið einnig úr bökkum árinnar. Oft hafa bændur misst fé sem festist í leðjunni og drepst en nú vill svo heppilega að bændur á svæðinu í kringum ána eru búnir að smala.

Kirkjugarðurinn óhultur

Í viðtali við Gísla Halldór eftir Skaftárhlaup árið 2006 kom fram að Skaftár rifi stöðugt meira úr bökkum sínu og átti hún ekki nema örfáa metra eftir ófarna að gamla kirkjugarðinum á Eystri-Ásum. Sagði hann aðeins tímaspursmál hvenær færi að taka úr garðinum sjálfum en hann hefur ekki verið í notkun frá  því um aldamótin 1900.

Aðspurður segir Gísli Halldór að búið sé að setja bakkavörn við kirkjugarðinn. Var vörnin sett upp skömmu fyrir hlaupið 2010 og stóð hún hlaupið af sér. Búið er að hlaða marga bráðabirgðagarða á svæðinu til að minnka landbrot en gerir Gísli Halldór ráð fyrir að þeir gefi sig í stóru hlaupi.

„Það veit enginn hvar þetta hlaup kemur ef það kemur, ég held að það sé fleiri en einn möguleiki,“ segir Gísli Halldór. „Jökullinn hopar og þá getur svo margt breyst.“

Gísli Halldór Magnússon, bóndi á Ytri-Ásum í Skaftártungu.
Gísli Halldór Magnússon, bóndi á Ytri-Ásum í Skaftártungu. Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert