„Ekki alveg sáttur og sýndi aðeins tennurnar“

Steinbíturinn sýndi tennurnar og var ekkert sérlega frýnilegur, enda er …
Steinbíturinn sýndi tennurnar og var ekkert sérlega frýnilegur, enda er það hans hlutverk að verja eggin fyrir óboðnum gestum. Ljósmynd/Erlendur Bogason

Myndir af undrum og ævintýrum við Strýturnar í Eyjafirði hafa verið viðfangsefni Erlends Bogasonar, kafara og ljósmyndara, síðustu ár.

Það nýjasta á þeim vettvangi er steinbítur í sínu náttúrulega umhverfi sem vefur sporðinum utan um eggjaklasa og ver hann fyrir umhverfinu. Erlendur varð var við steinbítinn á föstudag, en veit ekki nákvæmlega hvenær hrygning átti sér stað, að því er fram kemur í umfjöllun um ævintýrin við strýturnar í Morgunblaðinu í dag.

„Ég þurfti aðeins að róta frá holunni til að komast að steinbítnum þegar ég sá hann fyrst fyrir helgi,“ segir Erlendur. „Hann var ekki alveg sáttur og sýndi aðeins tennurnar sem enn eru á sínum stað í kjaftinum.

Steinbíturinn ver eggjaklasann með því að hringa sig utan um eggjakúluna. Hann blakar sporðinum til að koma hreyfingu á sjóinn og hreinsar eggin þannig af sandi og öðrum óhreinindum, en kemur einnig súrefni inn í miðju eggjakúlunnar. Við vitum ekki nákvæmlega hvenær hrygning átti sér stað, en miðað við okkar þumalputtavísindi gætu eggin klakist þegar líður á janúar.

Það verður spennandi að sjá þegar augun fara að koma og síðan lirfur og seiði og ég mun kafa reglulega til að fylgjast með og reyna að ná klakinu á mynd. Ég vil verða vitni að þessu einstaka ferli í náttúrulegu umhverfi,“ segir Erlendur.

Þarna heldur steinbíturinn sig á malarbotni á um 22 metra dýpi og í kringum fiskinn má sjá skeljabrot og leifar af kröbbum og botndýrum ýmiss konar. Erlendur segist fara eins nálægt skútanum og hann geti án þess að trufla fiskinn óþarflega mikið.

Í sumar var Brian Cox, stjarneðlisfræðingur og þáttastjórnandi hjá BBC, í Eyjafirði í nokkra daga. Hann vinnur að þætti sem reiknað er með að verði sýndur á BBC eftir áramót. Erlendur segir að Cox hafi haft á orði að lífið á jörðinni hafi kviknað við sams konar aðstæður og eru við Strýturnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert