Skaftá orðin mórauð og ljót

Myndin er tekin á móts við bæinn Skaftárdal kl. 9.30 …
Myndin er tekin á móts við bæinn Skaftárdal kl. 9.30 í morgun. Ljósmynd/Auður Guðbjörnsdóttir

Skaftárhlaups er farið að gæta í byggð í Skaftárdal. Rennsli árinnar er ekki mjög mikið enn sem komið er en greinilegt er að framburður er kominn í ána og er hún orðin mórauð og ljót, að sögn bónda á Búlandi í Skaftártungu.

Talið er að hlaupið gæti orðið það stærsta hingað til og hefur vöxtur aldrei verið svo hraður í Skaftárhlaupi áður. Rennsli árinnar er nú 1023 m³/​s.

Frétt mbl.is: Mögulega stærsta Skaftárhlaupið

„Ég fór og leit á þetta klukkan hálf tíu í morgun og þá hafði vaxið töluvert í ánni frá því í gærdag. Ekki þannig að það væri búið að ná upp á veginn við Skaftárdal, vegurinn var enn alveg heill. Varnargarðurinn við brúna heldur,“ segir Auður Guðbjörnsdóttir, bóndi á Búlandi í Skaftártungu.

Auður segir greinilegt að framburður sé kominn í ána. „Þetta er orðið fallega mórautt og ljótt. Áin er ekki orðin vatnsmikil en það er töluvert meira í henni en í gær,“ segir hún. Ekki finnst brennisteinslykt af ánni enn sem komið er. „Við búumst við því að sjá verulegan mun á ánni upp úr hádegi, þá verður þetta orðið áþreifanlegra,“ segir Auður.

Kanna hvort fólk sé á svæðinu

Lögreglumaður frá lögreglunni á Suðurlandi fór um svæðið í morgun til að kanna hvort einhverjir séu á svæðinu en Almannavarnir leggja á áherslu á að halda fólki frá vegna mengunar ofar í dalnum. Þá má einnig gera ráð fyri að vegir muni lokast. Ekki er vitað til þess að margir séu á ferli á svæðinu.

„Það er aðallega það sem við erum að horfa á núna. Þetta virðist vera að vaxa mjög hratt og það bendir vel til þess að þetta verði með stærri hlaupum,“ segir Víðir Reynisson, verkefnisstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi og bætir við að viðbrögðin miðist við það.

„Við erum tilbúnir að bregðast við ef eitthvað breytir frá okkar áætlun, þ.e.a.s. við höldum frá fólki ef þarf og svo er Vegagerðin tilbúin með ráðstafanir ef þjóðvegur 1 er í hættu,“ bætir hann við.

Eru líkur á að hlaupið ógni þjóðvegi 1?

„Við erum undirbúnir undir það og fylgjumst vel með því. Ef þetta verður eitthvað í líkingu við hlaupið 1995, sem við erum helst að horfa til núna, þá teljum við að það sé ekki hætta á að þjóðvegurinn rofni. Við erum undirbúnir undir það, að loka veginum ef svo verður en það verður bara að koma í ljós,“ segir Víðir.

Lögregla fundar með vísindamönnum vegna hlaupsins kl. 11.30.

Myndin er tekin á móts við bæinn Skaftárdal kl. 14 …
Myndin er tekin á móts við bæinn Skaftárdal kl. 14 í gær, miðvikudag. Ljósmynd/Auður Guðbjörnsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert