Á lakkskóm um náttúruperlur

Friðgeir Guðjónsson, Ólöf María Jóhannsdótttir, Sigurlaug Gissurardóttir, Ragnheiður Haraldsdóttir og …
Friðgeir Guðjónsson, Ólöf María Jóhannsdótttir, Sigurlaug Gissurardóttir, Ragnheiður Haraldsdóttir og Reynir Freyr Pétursson við eina þyrlu fyrirtækisins. mbl.is/Árni Sæberg

Við lendum ekki á viðkvæmum stöðum enda viljum við ekki skilja eftir okkur ummerki. Oft erum við að lenda á snjó og yfirleitt er það þannig að það sér ekki nokkur maður að þyrla hafi lent á staðnum,“ segir Friðgeir Guðjónsson, sölu- og markaðsstjóri hjá Reykjavík Helicopters.

Góður uppgangur hefur verið í þyrluferðamennsku hér á landi undanfarin ár og eru nokkur þyrlufyrirtæki starfrækt á landinu.

Saga Reykjavík Helicopters er stutt en farsæl. Í janúar 2013 hóf fyrirtækið störf og var strax vel tekið á markaðnum. Friðgeir segir að það hafi verið stöðugur vöxtur frá fyrsta degi og gerir ráð fyrir að svo verði áfram ef marka má spár um fjölgun ferðamanna. „Það er samt ekki enn byrjað að gjósa á þessu ári,“ segir hann og hlær, en fyrirtækið var fullbókað alla dagana sem gosið í Holuhrauni stóð yfir.

Skilur ekki eftir sig spor

Þar sem þyrla þarf hvorki flugbrautir né vegi bendir Friðgeir á að í fimm klukkustunda þyrluferð megi komast yfir og sjá svæði sem gæti tekið marga daga að komast yfir með hefðbundnum leiðum. Að auki skilur þyrla ekki eftir sig nein spor í náttúrunni.

„Náttúran er með öllu ósnortin eftir okkar ferð um svæðið. Auðvitað brennum við eldsneyti en miðað við yfirferðina, ef við berum saman jeppa og þyrlu í Diamond-ferðinni okkar, þá er eyðslan líklega svipuð í lítrum talið. Þar erum við á flugi í tvo og hálfan tíma, en á ferðinni í fimm. Það tæki viku eða tíu daga að fara á þessa staði með hefðbundnum leiðum, s.s. á jeppum, vélsleðum eða gangandi. Fólk fer Laugaveginn, frá Landmannalaugum til Þórsmerkur, á lakkskónum með okkur. Þess vegna held ég því fram að þetta sé mjög umhverfisvænn ferðamáti. Það er hins vegar hávaðamengun frá okkur, en við reynum að taka tillit til þess eins og við getum,“ segir hann.

Alls staðar vöxtur

Á síðunni TripAdvisor er fyrirtækið eingöngu með einkunnina „Excellent“, en þegar þetta er skrifað má þar finna 70 ummæli um fyrirtækið og eru þau öll á einn veg. „Það er eitthvað sem við erum mjög stoltir af og lýsir metnaðinum hjá okkur. Excellent-einkunn kemur ekki að sjálfu sér og skiptir hún miklu máli. Fólk úti í heimi skoðar þessa síðu áður en það leggur af stað og bókar sér þyrluflug,“ segir hann.

Friðgeir segir að fyrirtækið sé tilbúið í að vaxa með auknum ferðamannastraumi. „Það er vöxtur alls staðar í ferðamannabransanum og við erum tilbúnir í það og erum alltaf að skoða okkar mál,“ segir hann. Þá er þyrlufloti fyrirtækisins einnig í stöðugri skoðun, en þyrlurnar sem fyrirtækið heldur úti eru nýlegar og af gerðinni Eurocopter AS-350B2 og AS-350B3. „Markaðurinn fyrir þyrlur er alþjóðlegur og við fylgjumst vel með honum,“ segir Friðgeir.

Fljúgum ekki blindflug

Að sögn Friðgeirs spilar veðrið stóran þátt í rekstri þyrlufyrirtækja enda vilja viðskiptavinir sjá náttúruperlur landsins, en ekki skýjabakka og þoku. „Þoka og vindur eru ekki vinir okkar. Sem dæmi má nefna að þegar eldgosið var í Holuhrauni vorum við nánast fullbókaðir alla daga meðan á gosinu stóð. En ætli við höfum ekki þurft að aflýsa helmingnum vegna veðurs.“

Rúmlega hálf milljón safnaðist

Friðgeir Guðjónsson afhenti Krabbameinsfélagi Íslands í fyrra alls 521.045 krónur sem safnast höfðu hjá fyrirtækinu í október sama ár við sölu á Bleikum þyrluferðum. Hafði þyrla fyrirtækisins þá verið máluð bleik á litinn og skreytt bleiku slaufunni. Bauð fyrirtækið þannig upp á „bleikar útsýnisferðir“.

Friðgeir segir þetta verkefni hafa verið skemmtilegt en krefjandi. „Ég veit ekki hvort við gerum þetta aftur. Það var örlítið flóknara að gera þetta en við héldum. Það voru fimm menn í tvo daga að mála þyrluna. Það var þó sannarlega þess virði enda til styrktar góðu málefni, sem er eitthvað sem við munum reyna að gera meira af í framtíðinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert