Gunnar Bragi fordæmdi dauðarefsingu

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. UN Photo/Kim Haughton

„Þegar stór hluti heimsbyggðarinnar þarf að búa við óréttlæti hvern einasta dag og fólk hefur engan málsvara, er friði og öryggi stefnt í hættu. Og án friðar og öryggis verður sjálfbær þróun ekki að veruleika.

Á sama tíma má ekki nota frið og öryggi til þess að réttlæta mannréttindabrot. Ekki á að réttlæta dauðarefsingar undir þeim formerkjum að viðhalda þurfi skipulagi og öryggi.

Í þessu samhengi er mál Ali Mohammed al-Nimr í Sádi-Arabíu, sem var unglingur þegar meint brot hans áttu sér stað, sérstaklega mikið áhyggjuefni. Ég kalla eftir því að Sádi-Arabía standi við alþjóðaskuldbindingar og mildi refsingu hans,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra í ræðusinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag.

Frétt mbl.is: Verður gerður höfðinu styttri

Ísland styður tveggja ríkja lausn

Gunnar Bragi ítrekaði í ræðu sinni afstöðu Íslands til deilunnar á milli Ísrael og Palestínu, og sagði Ísland styðja tveggja ríkja lausn.

„Bæði ríki þurfa að skuldbinda sig þessari lausn, og verða að halda aftur af sér í aðgerðum sem grafa undan slíkri lausn,“ sagði Gunnar.

Sagði hann Ísland kalla eftir því að herkví verði aflétt af Gaza, og að Ísrael þurfi að standa við alþjóðaskuldbindingar sínar um mannréttindi. Fela skuldbindingarnar í sér að eyðilegging heimila í Palestínu verði hætt og tilfærslu Palestínumanna frá landi sínu.

„Hryðjuverkaárásir frá Palestínu eru einnig óásættanlegar og grafa undan friði. Við fordæmum allar tegundir ofbeldis gegn óbreyttum borgurum. Öryggi og velferð borgara verður alltaf að vera tryggt,“ sagði Gunnar Bragi í ræðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert