Ísland lítið en með sterka rödd

Erna segir flóttafólkið hafa sýnt hópnum mikla vinsemd og hlýju …
Erna segir flóttafólkið hafa sýnt hópnum mikla vinsemd og hlýju þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum miklar hörmungar. Ljósmynd/ Erna Kristín Blöndal

Frá því að stríðið í Sýrlandi hófst hafa um 240 þúsund Sýrlendingar misst lífið, þar af minnst 12.000 börn. Ein milljón manns hefur særst eða hlotið varanlega örkumlun vegna átakanna. Fjórar milljónir Sýrlendinga hafa flúið landið og 7,6 milljónir eru á vergangi innan síns eigins heimalands. Þó svo að Evrópa hafi vaknað við ljósmynd af drukknuðum dreng hefur styrjöldin staðið í fjögur og hálft ár og flótti Sýrlendinga til Evrópu á sér þannig langan aðdraganda. Áætlað er að um 2.800 manns hafi drukknað í Miðjarðarhafi síðan í sumar en ekki er hægt að reiða sig fyllilega á töluna, enda hefur nokkur fjöldi tómra báta fundist, án vísbendinga um afdrif farþeganna.

Þetta kom fram í fyrirlestri Ernu Kristínar Blöndal, doktorsnema í lögfræði og sérfræðingi hjá innanríkisráðuneytinu um ástandið í Sýrlandi og aðstæður flóttafólks. Hún sagði ríka ástæðu fyrir því að Miðjarðarhafið sé kallað stærsta fjöldagröf heims og að ekki sé hægt að kalla mannskaðann slys heldur sé hann afleiðing stefnuleysis stjórnvalda.

„ „Flóttamannavandinn“ er rangnefni. Vandamálið er Sýrland og það sem er að gerast þar, flóttamennirnir eru afleiðing af því. Vandinn í Evrópu eru viðbrögð stjórnvalda,“ sagði Erna.

Bíða eftir því að vakna

Erna fór nýlega til Tyrklands, Ítalíu og Líbanon ásamt Óttarri Proppé, þingmanni Bjartrar framtíðar og Unni Brá Konráðsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins að kynna sér aðstæður í flóttamannabúðum. Þar sáu þau aðbúnað fólksins, allt frá gámum með rennandi vatni í Tyrklandi yfir í kofa úr pappakössum í Líbanon. Þau ræddu við foreldra sem höfðu ekki fundið elstu dóttur sína áður en þorpið þeirra var sprengt í loft upp, konu sem fékk enga aðstoð frá nærstöddum þegar þrír menn reyndu að draga hana inn í bíl og sex ára dreng sem er fyrirvinna einstæðrar móður sinnar og systkina.

„Margir notuðu orðið „nightmare“ - Þetta er martröð og við erum að bíða eftir að vakna,“ sagði Erna um lýsingar fólksins. „Margir héldu að þetta yrði stutt, en þau eru búin að missa vonina. Það sem fólkið saknar mest eru  þessir venjulegu, hversdagslegu hlutir, þegar krakkarnir neituðu að borða kvöldmatinn...ef það væri bara eitthvað til að neita núna.“

Flestir sem Erna og ferðafélagar hennar hittu sögðust hafa dregið það eins lengi og þeir gátu að flýja. Oft beið fólk eftir því að geta sameinast ástvinum annars staðar úr landinu til að flýja í sameiningu en margir neyddust til að yfirgefa Sýrland í flýti án fólksins síns.

Erna segir flesta hafa nefnt börnin sín sem ástæðu fyrir því að flýja landið. Sýrlendingar séu stolt og menntað fólk sem veit hvað það þýðir að flýja heimkynni sín og lenda á vergangi. Þegar hver einasta ákvörðun um að fara út úr húsi sé upp á líf og dauða er óvissan hinsvegar svo mikil að fólk sér þann kost vænstan að leita að öruggara heimili í von um betra líf fyrir næstu kynslóð. Nágrannalönd Sýrlands eru hinsvegar löngu komin fram yfir þolmörk og geta ekki uppfyllt grunnþarfir allra sem þangað koma.

„Í Sýrlandi var ókeypis og lögbundið skyldunám. Flestir sem við hittum var menntað fólk sem var mjög meðvitað um að börnin þeirra væru að alast upp án heilbrigðisþjónustu, bólusetninga og menntunar,“  segir Erna. Hún minnist samtals við flóttamann í Líbanon sem hafði fengið sig fullsaddan af bágum aðstæðum í landinu og útskýrði fyrir henni afhverju hann væri tilbúinn að hætta lífi og limum til að komast til Evrópu. „Ég vil frekar gera eitthvað en að veslast upp í þessu volæði.“

95% flóttafólksins í þremur löndum

Líbanon er það land sem tekið hefur á móti mestum fjölda Sýrlenskra flóttamanna, líklega um 1,5 milljón manns, en tölurnar eru óljósar þar sem Líbanon er hætt að skrásetja fólkið. Samtals eru 95% þeirra fjögurra milljóna Sýrlendinga sem flúið hafa heimaland sitt vegna átakanna niðurkomnir í Líbanon, Tyrklandi og Jórdaníu. Erna segir nauðsynlegt að tryggja að grunnþörfum fólksins sé mætt en að í dag vanti mikið upp, mataraðstoð Sameinuðu þjóðanna hafi t.a.m. aðeins 40% þess fjármagns sem hún þarfnast.

„Grunnþarfirnar eru heimili, skjól og matur. Það er að koma vetur og víða er snjór og mjög kalt. Þá þarf hlý föt, upphitun og eldsneyti. Margir búa í pappakössum og tjöldum, börnin eru vannærð og því getur veturinn orðið mjög erfiður,“ sagði Erna.

Hún sagði börn sérlega viðkvæm fyrir ýmsum sjúkdómum sem koma upp í flóttamannabúðum og þar sem mikið er um óþrifnað og að helsta dánarorsök flóttabarna sé niðurgangur. Þá sagði hún flóttabörn einnig í sérlega viðkvæmri stöðu gagnvart kynferðislegri misnotkun og misbeitingu og að sumar fjölskyldur neyðist til að selja eða gefa ungar dætur sínar í hjónaband til að halda lífi.

Ísland lítið en með sterka rödd

Erna sagði fjölda flóttafólks í Evrópu minni en margir geri sér grein fyrir. Aðeins séu 239 þúsund hælisleitendurfrá Sýrlandi í Evrópu en íbúar álfunnar eru yfir 740 milljónir. Hún segir það neita flóttafólki um aðstoð sé áþekkt því að einum flóttamanni skoli upp á 500 manna eyju og að honum sé ýtt aftur á haf út með afsökunum um plássleysi. Benti hún á að Evrópa ætti í raun við fólksfækkunarvanda að stríða þar sem meðalaldur fer síhækkandi en fæðingartíðni hefði lækkað umtalsvert frá því sem áður var.

 „Ísland getur gert heilmikið. Þó við séum lítil þá erum við með mjög sterka rödd. Við höfum oft tekið frumkvæði og rekið á eftir öðrum löndum.“

Erna segir jákvætt að stjórnvöld hafi ákveðið að verja meira fjármagni til móttöku flóttafólks en að það þurfi einnig að huga sérstaklega að stuðningi við nágrannalönd Sýrlands þar sem flest flóttafólk er að finna. „Við getum tekið á móti kvótaflóttamönnum sem er mikilvægt bæði til að létta á þrýstingi og taka á móti þeim sem ekki geta fengið fullnægjandi vernd í nágrannaríkjum Sýrlands en ef við styðjum ekki við nágrannalöndin erum við að neyða fólk til að fara yfir Miðjarðarhafið.“

Hún segir Evrópusambandið hafa misst af tækifæri til að sýna styrk sinn með samstöðu  um lausn málsins og að nauðsynlegt sé að auka pressu á lausn deilunnar í Sýrlandi.

Hvað er til ráða?

Átökin í Sýrlandi rekja upphaf sitt til Arabíska vorsins, uppreisnar gegn stjórnvöldum sem þróaðist yfir í borgarastyrjöld þar sem  her hliðhollur forsetanum Bashar al-Assad berst gegn andspyrnuhreyfingum og Ríki Íslams sem einnig takast á sín á milli. Ýmislegt hefur blandast inn í deiluna s.s. trúarbrögð og hagmunir annarra landa og aðrir öfgahópar og segir Erna vandann gríðarlega flókinn.

„Sveitir Asssad hafa misst yfir helminginn af yfirráðasvæðum sínum í landinu. Öfgahópar nýta allar glufur og þó svo að við losum okkur við Assad, sem flestir viðurkenna að sé glæpamaður, hvað verður þá um tómið?“

Erna segir að almennt samkomulag ríki um að stríðsátökunum þurfi að linna en að ekki séu allir á eitt sáttir um hvernig fara eigi að. Assad hefur Vladimir Pútín, forseta Rússlands á sínu bandi. Rússar hafa fjórum sinnum beitt neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna til að verja Assad og hafa jafnframt hafið loftárásir í Sýrlandi. Pútín hefur lagt til að Rússar og Bandaríkin taki höndum saman við Assad og andspyrnuhreyfingar í landinu til að vinna gegn Ríki Íslams. Erna segir Bandaríkjamenn hinsvegar hikandi, þeir óttist að koma inn með háþróuð vopn og missa þau úr höndunum. Það sé heldur ekki freistandi að vinna með Assad sem hóf slátrun á eigin borgurum þegar hann áttaði sig á því að hann hefði engu að tapa.

Erna segir Bandaríkin og Rússland þó þurfa að taka virkan þátt í að leita lausna á hörmungunum. Eina lausnin sé pólitísk.

Þarf að komast á fjárlög

Eftir fyrirlestur Ernu sat hún fyrir svörum í umræðum ásamt Óttarri Proppé.

Meðal annars voru þau spurð á því hvernig Ísland gæti orðið öðrum þjóðum fyrirmynd í málefnum flóttafólks og hælisleitenda og sagði Erna mikilvægast að Ísland geri sér langtímaáætlanir.

„Við þurfum í fyrsta lagi að koma þessu fast inn í fjárlög. Við þurfum að taka hlutfallslega mikið af fólki og pressa á önnur lönd og við erum að gera það en það er aðeins of óljóst finnst mér hvað við erum að setja mikið af pening í kvótaflóttamenn annars vegar og hinsvegar hæliskerfið. Við þurfum að gera skýrara fordæmi í kvótaflóttakerfinu og aðgreina það frekar.“

Óttarr sagði pólitíska svarið við spurningunni væri að koma upp góðu kerfi.

„Til þess að við getum staðið upp og notað þessa rödd sem við höfum til að segja öðrum að gera betur þá þurfum við náttúrulega að gera betur,“ sagði Óttarr og bætti við að Ísland þyrfti að hafa eyrun opin og halda opinni umræðu um málefni flóttafólks. „Við erum alltaf að tala um Sýrland og þann flóttamannavanda en það er einnig mikill flóttamannavandi annars staðar í heiminum.“

Einnig var rætt um möguleika á breiðari fjölskyldusameiningar en nú er við líði þar sem fjölskyldusameiningar taka aðeins til maka og barna. Þau Óttarr og Erna sögðu slíkar hugmyndir að finna í frumvarpsdrögum að nýjum útlendingalögum og sagði Erna að hún teldi persónulega góð rök fyrir því að fá ættingja flóttafólks til landsins.

„Þá erum við t.d. að tala um aðlögun að samfélaginu. Ef þú veist af móður þinni, bróður þínum eða börnunum hans í stríðsástandi, hvernig líður þér? Ertu að hámarka getu þína innan samfélagsins. Er þetta ákjósanleg staða fyrir einstakling sem við höfum ákveðið að veita vernd í okkar samfélagi? Ef maður lítur á það þannig þá er mjög skynsamlegt að sameina fjölskyldur.“

Hópurinn í heimsókn á heilbrigðisþjónustu flóttafólks í Tyrklandi.
Hópurinn í heimsókn á heilbrigðisþjónustu flóttafólks í Tyrklandi. Ljósmynd/ Erna Kristín Blöndal
Erna Kristín Blöndal.
Erna Kristín Blöndal.
Drengur sem fæddist í flóttamannabúðunum í Tyrklandi. Móðir hans var …
Drengur sem fæddist í flóttamannabúðunum í Tyrklandi. Móðir hans var spennt fyrir myndatökunni þar sem hún átti engar myndir á honum. Hún setti á hann augnblýant áður en Erna smellti af. Ljósmynd/ Erna Kristín Blöndal
Fjölskyldan á myndinni bjó í tjaldinu sem sést við hlið …
Fjölskyldan á myndinni bjó í tjaldinu sem sést við hlið trappanna. Ljósmynd/ Erna Kristín Blöndal
Leiguhúsnæði Sýrlendinga á strandhóteli í Trípolí. Húsnæðið er illa farið, …
Leiguhúsnæði Sýrlendinga á strandhóteli í Trípolí. Húsnæðið er illa farið, mygla á veggjum og leki víða.
Konur í flóttamannabúðum í Tyrklandi þurrka uppskeru fyrir veturinn.
Konur í flóttamannabúðum í Tyrklandi þurrka uppskeru fyrir veturinn. Ljósmynd/ Erna Kristín Blöndal
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert