Lang stærsta hlaupið hingað til

Skaftá er í gríðarleg­um ham, svört af aur og æðir …
Skaftá er í gríðarleg­um ham, svört af aur og æðir yfir grasi gróna bakka sína. Ragn­ar Ax­els­son tók þessa mynd við ána í morg­un. mbl.is/RAX

Talið er að rennsli Skaftárhlaupsins hafi farið yfir 3.000 rúmmetra á sekúndu þegar mest var fyrr í dag. Núna er rennslið komið niður í rúmlega 1.500 rúmmetra, en það er þó enn meira en mælst hafði áður í Skaftárhlaupum síðan byrjað var að mæla þau árið 1955. Þetta segir Snorri Zophóníasson, vatnasérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Brýrnar héldu

Brýrnar yfir Eldvatn og Kúðafljót virðast ætla að standa af sér hlaupið og hefur Vegagerðin nú hleypt umferð aftur á Eldvatnsbrúnna, eftir að henni var lokað fyrir 10 í morgun. Snorri segir að ef þær hafi staðið af sér mesta rennslið séu mestar líkur á að þær standi þetta af sér. Ágúst F. Bjartmarsson, hjá Vegagerðinni á Suðurlandi, tekur í sama streng og segir að brýrnar hafi haldið þegar mesti toppurinn kom. Hann tekur þó fram að enn sé fullt rennsli undir brýrnar og það sjáist því ekki undir þær.

Rúmlega sjöfalt rennsli Þjórsár

Til að setja það gífurlega rennsli sem var í ánni þegar hápunkti var náð í samhengi við rennsli annarra áa, þá er rennsli Þjórsár oft á bilinu 350 til 450 rúmmetrar á sekúndu og rennsli í Ölfusá á bilinu 300 til 500 rúmmetrar á sekúndu. Rennsli í Jökulsá á Fjöllum er þá á bilinu 200 til 400 rúmmetrar á sekúndu.

Þegar vatnið kemur að Skaftáreldahrauni rennur það út í hraunið og lónar upp í framhaldinu. Snorri segir að mjög mikið vatn sé komið í hraunið. Nú þegar er komið meira vatn þar en á einni viku í síðustu hlaupum.

Gæti valdið leirfoki

Snorri segir að það þurfi að minnka verulega rennsli í ánni svo það hætti að flæða út um allt, en hann segir að hlaupið gangi niður á kannski fjórum dögum. Eftir það komi í ljós hvenær hætti að flæða út í hraunið, en lónið geti verið í talsverðan tíma.

Mikill kraftur var enn í hlaupinu þegar blaðamaður og ljósmyndari …
Mikill kraftur var enn í hlaupinu þegar blaðamaður og ljósmyndari mbl.is flugu yfir það upp eftir Skaftárdal síðdegis í dag. mbl.is/Kjartan

Á meðan hlaupið er að sjatna og enn streymir vatn inn í hraunið flæðir vatnið lengra og lengra fram hraunið og segir Snorri að það geti haft þær afleiðingar að jökulvatnið renni fram af Skaftáreldahrauninu í Landbrotshraunið og þannig í lindalæki sem þar renni. Þar fari drullugt vatnið yfir mosa og svo þegar vatnið sjatnar verður leirinn eftir og getur fokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert