Of mikið vatn fyrir vatnamælingamenn

Gunnar Sigurðsson, vatnamælingamaður Veðurstofunnar, við Eldvatn í morgun.
Gunnar Sigurðsson, vatnamælingamaður Veðurstofunnar, við Eldvatn í morgun. Rax / Ragnar Axelsson

Vatnamælingamenn Veðurstofunnar sem ætluðu að mæla vatnið í Skaftárhlaupi við brúna yfir Eldvatn þurftu frá að hverfa vegna vatnsflaumsins nú fyrir hádegið. Gunnar Sigurðsson vatnamælingamaður segir hlaupið það langmesta sem sést hafi í Skaftá.

Veðurstofan er með kofa við Eldvatn, eina þriggja kvísla Skaftár, rétt ofan við brúna við Ása sem mælir rennslið. Kofinn er hins vegar orðinn umflotinn vatni og gátu vatnamælingamenn ekki ekið að honum með þung tæki sín og tól. Slóði sem þeir hafa vanalega ekið eftir er algerlega horfinn undir vatn.

„Það er eiginlega ekki hægt að vera hérna lengur, vatnið hækkar svo hratt ennþá. Við sjáum hvað gerist þegar það byrjar að lækka aftur,“ segir Gunnar, sem er ekki viss um hvort hlaupið sé farið að nálgast hámark.

Til hafi staðið að taka sýni úr ánni til að mæla grugg, greina efnainnihald og einnig mæla rennslið. Mælingamenn þurfi hins vegar að bíða og sjá til hvernig aðstæður verða seinni partinn til mælinga.

Gísli Halldór Magnússon, bóndi á Ásum, áætlaði að vatnið í ánni hefði hækkað um tvo metra frá því klukkan sex í morgun og segir Gunnar að það geti vel staðist. 

„Þetta er það langmesta sem við höfum séð,“ segir Gunnar um hlaupið.

Brúin yfir Eldvatn er lokuð en gríðarlegt rennsli er í …
Brúin yfir Eldvatn er lokuð en gríðarlegt rennsli er í hlaupinu sem fer undir hana. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson
Kúðafljót um hádegibil föstudaginn 2. október 2015.
Kúðafljót um hádegibil föstudaginn 2. október 2015. Ljósmynd/Af Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert