Ógleymanlegt fyrir ferðamennina

Sean og Sheralyn frá Singapúr voru á meðal erlendra ferðamanna …
Sean og Sheralyn frá Singapúr voru á meðal erlendra ferðamanna sem stoppuðu við brúna yfir Eldvatn í dag til að skoða hlaupið, Rax / Ragnar Axelsson

Hlaupið í Skaftá hefur reynst vera óvæntur bónus fyrir ferðamenn sem hafa átt leið hjá því. Í sumum þeirra sem börðu vatnselginn augum við brúna við Ása vakti það óttablandna virðingu en fyrir hóp skoskra ljósmyndara var hlaupið einstakt tækifæri til að smella af ógleymanlegum náttúrumyndum.

Skoski hópurinn er frá Aberdeen í Norðvestur-Skotlandi en rúta hans stoppaði við brúna yfir Eldvatn við Ása þar sem dökkgráleitt vatnið streymir fram af offorsi. Andy Hall, einn ljósmyndaranna, segir að hópurinn sé á landinu í viku en ferð hans var heitið að Jökulsárlóni þegar blaðamaður náði tali af honum skömmu eftir að hann hafði virt hlaupið fyrir sér.

„Við vissum af hlaupinu, leiðsögumaðurinn okkar sagði okkur frá því. Við veltum fyrir okkur hvort við kæmumst að Jökulsárlóni. Þegar við áttum leið hjá sáum við þetta geysimikla vatn og hugsuðum að þetta væri stórfenglegt myndatækifæri sem við hefðum ekki geta skipulagt,“ segir Hall kampakátur.

„Þetta er bónus en við erum ánægð með að þið séuð öll heil á húfi,“ segir ferðafélagi hans, Fiona Betteridge sem finnst sterki grái liturinn sem einkennir jökulvatnið tilkomumikill.

„Þetta var ógleymanlegt. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt á ævinni eða á ferli mínum sem ljósmyndari. Krafturinn, dramað og orkan var einstök. Þegar við komum aftur heim munum við vita að við vorum hér á afar sérstökum tíma. Okkur finnst við heppin og hafa notið forréttinda að þetta hafi gerst,“ segir Hall.

Hluti af skoska ljósmyndahópnum. Betteridge og Hall eru lengst til …
Hluti af skoska ljósmyndahópnum. Betteridge og Hall eru lengst til vinstri á myndinni. Rax / Ragnar Axelsson

Fallegt en ógnvekjandi

Sean og Sheralyn frá Singapúr stoppuðu einnig við Eldvatn þegar þau sáu bíla og hóp af fólki þar við ána. Fyrirfram vissu þau aðeins að flóð væri í gangi en ekki í líkingu við það sem þau sáu. 

„Það gerist aldrei neitt þessu líkt í Singapúr,“ segja þau.

Þau voru sammála um að hlaupið væri nokkuð ógnvænlegt.

„Það er fallegt núna en það getur verið ógnvekjandi,“ segir Sheralyn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert