25 Sýrlendingar hafa sótt um hæli

Allir hafa fengið þak yfir höfuðið.
Allir hafa fengið þak yfir höfuðið. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í ágúst og september kom til landsins ófyrirséður og fordæmalaus fjöldi fólks og sótti um hæli. Samtals sóttu 110 manns um hæli í þessum tveimur mánuðum.

Það sem af er árinu 2015 hafa 218 manns sótt um hæli og er það mesti fjöldi sem nokkru sinni hefur komið til landsins í hælisleit á einu ári.

Miðað við fjölgunina milli ára og þróun mála undanfarnar vikur má búast við á bilinu 290 og 350 hælisleitendum á árinu.

Samtals eru 95 umsækjendur, um 44%, frá ríkjum Balkanskagans. Þar eru Albanir fjölmennastir og eru þeir um þriðjungur allra umsókna á árinu. 

Umsækjendur frá Sýrlandi eru 25, um 11% allra umsækjenda, og eru þeir ríflega fjórfalt fleiri það sem af er ári en allt árið 2014. Í ljósi borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi eru umsækjendur þaðan ekki undir neinum kringumstæðum sendir þangað.

Útlendingastofnun hefur það sem af er ári lokið 211 hælismálum en þar á meðal eru mál frá fyrri árum auk mála sem komu aftur til meðferðar frá innanríkisráðuneytinu, kærunefnd útlendingamála og dómstólum, samkvæmt fréttatilkynningu á vef Útlendingastofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert