800 metra vegur sópaðist í burtu

Skaftárhlaupið hefur valdið talsverðri eyðileggingu í Skaftártungu. Ofar við ána …
Skaftárhlaupið hefur valdið talsverðri eyðileggingu í Skaftártungu. Ofar við ána er Hólaskjól, en hlaupið sópaði um 800 metra vegakafla þaðan í burtu. Rax / Ragnar Axelsson

800 metra vegkafli við Hólaskjól sópaðist í burtu í jökulhlaupinu sem kom niður Skaftá og eftir stendur aðeins gróft hraun þar sem áður var malarvegur. Vegkaflinn nær frá afleggjaranum að Hólaskjóli og í um 800 metra norður að hæð þar sem vegurinn hækkar á ný. Þetta segir Ágúst F. Bjartmarsson, hjá Vegagerðinni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

„Hlaupið kom og hreinsaði burt það sem var af veginum,“ segir Ágúst, en vegkaflinn er hluti af Fjallabaksleið nyrðri. Þótt austurleiðin frá Landamannalaugum sé jafnan fáfarnari vegur en vesturleiðin, þá er talsverð umferð þar um yfir sumartímann. Ágúst segir að fyrir hlaupið hafi vegurinn þó verið orðinn nokkuð torfarinn og aðeins fyrir sérútbúna bíla.

Vegurinn var malarvegur þar sem borið hafði verið ofan í hraunið, en hlaupið skolaði alla mölina í burtu. Ágúst segir að ef verktakar væru fengnir í verkið tæki það í raun ekki langan tíma, en þetta sé mál sem þurfi að skoða og engin ákvörðun hafi verið tekin hvort reynt verði að gera við veginn í ár áður en það fer að snjóa eða hvort þetta verði gert næsta vor. Segist hann þó frekar eiga von á að það verði næsta vor.

Þar sem vegurinn stóð á þessum kafla er núna aðeins gróft hraun undir og því ill fært bifreiðum að sögn Ágústs.

Aðspurður hvort streymt hafi inn að hálendismiðstöðinni í Hólaskjóli segir Ágúst að hann hafi ekki skoðað nákvæmlega með húsin og þá hafi hann ekki heldur séð hvort lónaði upp að þeim eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert