Brennisteinsfýlan berst til Noregs

Brúin yfir Eldvatn er lokuð er gríðarlegt rennsli er í …
Brúin yfir Eldvatn er lokuð er gríðarlegt rennsli er í hlaupinu sem fer undir hana. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Ekki er byrjað að flæða yfir Hringveginn og talsvert hefur dregið úr rennsli í Eldvatninu. Ef ekki flæðir yfir veginn í dag eða á morgun þá mun hann væntanlega sleppa í þessu Skaftárhlaupi.

Samfara hlaupvatninu er búist við losun eldfjallagastegunda s.s. brennisteinsvetnis og brennisteinsdíoxíðs. Gasið fylgir ríkjandi vindum og berst til norðausturs frá Skaftá um austanvert landið. Svo virðist sem lyktin finnist víðar því Norðmenn kvarta undan fýlu sem minni helst á rotnandi egg.

Sveinn Rúnar Kristjánsson yfirlögregluþjónn á Suðurlandi fylgist grannt með þróun Skaftárhlaupsins.

Þegar mbl.is náði tali af Sveini Rúnari í morgun sagði hann að það væri greinilegt að dregið hafi úr rennsli í Eldvatninu í nótt en á mælum Veðurstofu Íslands mælist rennslið við Ása 940 rúmmetrar á sekúndu. Þegar það náði há­marki þar um há­degið í gær mældist rennslið 2200 rúmmetrar á sekúndu.

Rennslið í Skaftá við Sveinstind er um 1160 rúmmetrar á sekúndu en þar fór rennslið yfir 3000 rúmmetra þegar mest lét.

Búið er að loka austasta hluta F208 vegna Skaftárhlaups. Sveinn segir að það sé hætt að renna vestan megin, meðfram gamla veginum og ofan í Eldvatnið á ný en það rennur meira austur með, við Árkvíslar (Brest) yfir Eldhraun og við afleggjarann að Skál á Síðu alla leið niður á þjóðveg. Þar liggur lænan og rennslið austur með þjóðveginum.

Milli Skálarafleggjarans og afleggjarans að Hungurbökkum er útsýnispallur í hrauninu. Þar hefur, í venjulegum Skaftárhlaupum, farið að renna aðeins úr hrauninu nokkrum dögum eftir að flóðið hefur náð hámarki en þar er komið tölvuvert vatn núna. 

Sveinn segir að þetta hafi gerst í nótt þar sem ekkert vatn hafi verið þar í gærkvöldi en nú sé vatnshæðin á annan metra. 

Að sögn Sveins er enn hætta á að það flæði yfir Hringveginn og við Litla-Brest hafi stíflan verið lagfærð og bætt í gær en þar er hægt rennsli inn að veginum. 

10 hringdu í lögregluna á hálftíma út af lyktinni

Íbúðar í Þrándheimi í Noregi fundu í gærkvöldi brennisteinsfnyk frá hlaupinu í Skaftá en fjallað er um það í Addresavisen. Að sögn Jonas Bjørkli blaðamanns lyktin enn í morgun og segir hann að fýlan minni helst á rotnandi egg og finnist á stóru svæði í Mið-Noregi.

Í frétt Adressavisen kemur fram að á hálftíma hafi tíu manns haft samband við lögregluna í Þrándheimi til þess að láta vita af óþefnum.

Frétt Adressavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert