Dregur úr rennslinu

Skaftá umlykur hér brúna á leið inn í Skaftárdal.
Skaftá umlykur hér brúna á leið inn í Skaftárdal. Rax / Ragnar Axelsson

Dregið hefur úr rennsli Skaftár við Sveinstind og hið sama á við um Eldvatnið við Ása. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er staðan breyst lítið í nótt en grannt er fylgst með rennsli árinnar. Á sama tíma og dregið hefur úr rennslinu þá hefur rafleiðnin aukist á mælum við Sveinstind. Ekki hefur þurft að loka þjóðvegi 1 en ef svo verður þá verður umferð beint um Meðallandsveg.

Rennsli Eldvatns við Ása náði hámarki um hádegið í gær og var þá um 2200 m3/s. Mikið vatn rennur víðsvegar út á hraunið og má búast við að þar flæði næstu daga. Samfara hlaupvatninu er búist við losun eldfjallagastegunda s.s. brennisteinsvetnis og brennisteinsdíoxíðs. Gasið fylgir ríkjandi vindum og berst til norðausturs frá Skaftá um austanvert landið.

Veðurstofa Íslands spáir mikilli rigningu á svæðinu um helgina og mun úrkoman hjálpa til við að framlengja ástandið. Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur og sérfræðingur á sviði jöklarannsókna hjá Veðurstofu Íslands, flaug yfir Skaftárhlaupið á fimmtudag ásamt hópi vísindamanna og segir hann mikið landflæmi farið undir vatn.

Vísindamenn hafa ekki á reiðum höndum skýringar á stærð hlaupsins, en Oddur segir að ekkert bendi til þess að eldgos sé hafið undir jöklinum.

Skaftárkatlar eru ketilsig sem verða til vegna mikilla jarðhitasvæða undir jöklinum, 10 og 15 km frá Grímsvötnum. Hlaupið sem nú stendur yfir kemur úr Eystri-Skaftárkatli en hlaup úr honum eru stærri og verða sjaldnar en þau sem koma úr vestari katlinum. Síðast hljóp úr eystri katlinum árið 2010.

Skaftárkatlarnir eru ketilsig sem verða til vegna mikilla jarðhitasvæða undir jöklinum 10 og 15 km norðvestan við Grímsvötn. Sigin eru nær hringlaga, 1-3 km í þvermál. Yfir miðju þeirra er 300-400 metra þykkur jökull, að því er Helgi Björnsson, jöklafræðingur, segir í bók sinni Jöklar á Íslandi sem kom út 2009.

Helgi segir að vatnasvið eystri ketilsins hafi verið metið 29 km2 og hins vestari 20 km2. Venjulega vaxi rennsli hratt frá eystri katlinum og lækki hægt. „Hið hraða ris bendir til þess, að hiti í vatninu í lóninu sé yfir bræðslumarki,“ skrifar Helgi.

Bræðsluvatnið safnast fyrir undir jöklinum og hleypur fram þegar vatnsþrýstingurinn verður það hár að jökulfargið nær ekki að halda aftur af því, segir í Handbók um Skaftárhlaup, Viðbragðsáætlun, sem Veðurstofa Íslands gaf út 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert