„Ekki fallegt krabbamein“

„Það er mjög oft erfitt að ræða þessi veikindi því að tala um stóma eitt og sér getur verið gríðarlega erfitt, hvað þá að segja fólki að þú sért ekki lengur með endaþarm það er bara búið að sauma fyrir allt,“ segir Rósa Björg Karlsdóttir, sem fékk ristilkrabbamein, hún segir fólk forðast umræðuefnið.

Jafnvel hafi margir haldið að meðferðin hafi ekki verið erfið í hennar tilviki þar sem hún missti ekki hárið. Hún hafi jafnvel hugleitt að raka af sér hárið til þess að þurfa ekki að útskýra fyrir fólki að lyfin sem notuð er í meðferð við ristilkrabbameini valda því ekki að þú missir hárið. 

Rósa Björg var ekki í áhættuhópi þegar hún greindist með krabbamein í ristli fyrir 6 árum síðan. Hún var rétt orðin fertug starfaði sem íþróttakennari, lifði heilbrigðu lífi og var í góðu líkamlegu ásigkomulagi.

Í tengslum við sölu bleiku slaufunnar í ár þar sem safnað er fyrir því að hægt sé að hefja skipulagða leit að ristilkrabbameini ætlar hún að deila reynslu sinni af veikindunum en ekki er algengt að fólk tali um reynslu sína af því að hafa fengið ristilkrabbamein í fjölmiðlum.

Rósa Björg segir nauðsynlegt að fólk geti talað um þessi mál svo að árangur náist í baráttunni gegn þessari tegund krabbameins en árlega deyja 52 Íslendingar eftir að hafa fengið krabbamein í ristil. Með því að greina krabbameinið fyrr og tíðari skimun myndi meðferðin verða mun árangursríkari.   

Stóma er utanáliggjandi poki á kvið sem tekur við þvagi eða hægðum en Alþjóðlegi stómadagurinn var á fimmtudaginn og þá voru birtar niðurstöður úr könnun sem gerð var á þekkingu og viðhorfum fólks á stóma. Þar kom fram að um 70% Íslendinga hafa heyrt um stóma en telja sig hafa litla þekkingu á því.

Vefur bleiku slaufunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert