Hálka í úthverfum

Það leynist víða hálka.
Það leynist víða hálka.

Það er hálka á götum í úthverfum á höfuðborgarsvæðinu en það kólnaði mjög í veðri í gærkvöldi og nótt. Það er einnig hálka á Sandskeiði og víðar í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

Víða má búast við hálku, einkum framan af degi. Hlýnar á morgun með hvassviðri og rigningu, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Hálka er á Hellisheiði, Þrengslum og Mosfellsheiði og  einnig á flestum leiðum á Suðurlandi allt austur að Markarfljóti.

Á Vesturlandi er hálka á flestum fjallvegum og einnig í Borgarfirði en snjóþekja er á  Bröttubrekku.

Það er hálka á fjallvegum á Vestfjörðum en að mestu greiðfært á láglendi.

Á Norðurlandi er hálka á Öxnadalsheiði og hálkublettir á Þverárfjalli en annars greiðfært. Vegir eru að mestu greiðfærir á Austur- og Suðausturlandi en þó eru hálkublettir á Hellisheiði eystri.

Á hálendinu er færð víða farin að versna, einkum Norðanlands og er Eyjafjarðarleið lokuð og þungfært á norðanverðri Sprengisandsleið og á Öskjuleið, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Hæg vestlæg og síðar breytileg átt og stöku skúrir eða él, en léttskýjað austanlands. Hiti yfirleitt 2 til 7 stig í dag. Vaxandi suðaustanátt í kvöld og nótt, 13-20 m/s á morgun með talsverðri rigningu. Hægari framan af degi norðaustan til og úrkomuminna. Hlýnandi veður, hiti 6 til 11 stig þegar kemur fram á morgundaginn.

Á sunnudag:
Gengur í suðaustan 13-20 m/s með talsverðri rigningu, en úrkomulítið norðaustanlands. Hlýnandi veður, hiti 6 til 12 stig seinnipartinn.

Á mánudag:
Suðaustan 10-18 m/s, en hægari vindur um landið vestanvert. Víða talsverð rigning, en þurrt að kalla norðaustan til. Hiti 6 til 13 stig, hlýjast á norðausturlandi.

Á þriðjudag:
Áframhaldandi suðaustanátt. Úrkomulítið á N-landi, annars rigning, talsverð SA-til. Hiti breytist lítið.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Suðaustlæg átt og þurrt að kalla fyrir norðan, annars skúrir eða rigning með líkum á slyddu til fjalla. Hiti 4 til 10 stig, hlýjast norðaustan lands.

Á föstudag:
Útlit fyrir austanátt með rigningu, einkum um austanvert landið.

Það gæti leynst hálka víða á þjóðvegum landsins.
Það gæti leynst hálka víða á þjóðvegum landsins. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert