Bjargaði börnunum gegnum glugga

Slökkviliðið var kallað út á þriðja tímanum í nótt.
Slökkviliðið var kallað út á þriðja tímanum í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eldur kom upp í einbýlishúsi í Mosfellsbæ í nótt á þriðja tímanum. Leigubílstjóri sem átti leið hjá varð eldsins var og vakti íbúa hússins og hjálpaði til við að bjarga tveimur börnum út sem þar voru. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins kom eldurinn upp í rekkverki á timburklæðningu á skjólvegg við kjallara hússins.

Húsið er í grunninn einbýlishús, en íbúð hafði verið gerð í kjallaranum. Slökkviliðsmaður segir að tæpt hafi staðið og þakka megi fyrir skjót viðbrögð leigubílstjórans að ekki hafi farið verr.

Var hann á ferð um hverfið og varð eldsins var. Lét hann slökkvilið strax vita og fór og vakti fólk í húsinu. Í kjallaranum var fullorðinn einstaklingur ásamt tveimur börnum og rétti húsráðandi honum börnin gegnum glugga sem er á íbúðinni áður en hann stakk sér sjálfur gegnum eldhafið og komst út.

Skemmdir eru á kjallaraíbúðinni og þurfi slökkvilið að rífa klæðningu af húsinu. Grunur leikur á að um íkveikju hafi verið að ræða. Slökkvistarf gekk vel og tók um eina og hálfa klukkustund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert