Hollande á þingi Hringborðs Norðurslóða

Francois Hollande, forseti Frakklands.
Francois Hollande, forseti Frakklands. AFP

Þriðja þing Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle verður haldið í Hörpu dagana 16. – 18. október og munu hátt á annað þúsund þátttakendur frá um 50 löndum sækja þingið frá fjölda landa í Evrópu og Asíu sem og frá öllum ríkjum Norðurslóða.

Francois Hollande, forseti Frakklands, mun flytja stefnuræðu á fyrsta degi þingsins og forseti Kína, Xi Jinping og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafa ákveðið að sérstakar sendinefndir muni á þinginu kynna stefnu og aðgerðir ríkjanna í málefnum Norðurslóða.

Það var forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson sem hafði ásamt öðrum forystumönnum í málefnum Norðurslóða frumkvæði að stofnun Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle. Þingið er nú stærsta og fjölþættasta árlega samkoma veraldar um málefni og framtíð Norðurslóða.

Auk þess munu háttsettir fulltrúar frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, Hvíta húsinu og Öldungadeild Bandaríkjaþings fjalla um forystu Bandaríkjanna í málefnum Norðurslóða og sendimaður Vladimirs Putins Rússlandsforseta fjalla um framtíðarstefnu landsins á Norðurslóðum.

Fjölmargar alþjóðlegar vísindastofnanir, háskólar og náttúruverndarsamtök munu senda fulltrúa á þingið og taka þeir þátt í umræðum og málstofum um fjölmörg efni Norðurslóða. Þá munu stjórnendur fyrirtækja frá Bandaríkjunum, Kína, Þýskalandi og fleiri löndum kynna áætlanir sínar um fjárfestingar og umsvif á Norðurslóðum. Þeirra á meðal eru bandaríski fjárfestingasjóðurinn Guggenheim, kínverska orkufyrirtækið Sinopec sem er eitt hið stærsta í heimi og Bremenhöfn, ein af stærstu höfnum Evrópu.

Auk allsherjarfunda þingsins verða þar haldnar um 70 málstofur um fjölda efna.

Nokkur hundruð áhugasömum Íslendingum býðst nú kostur á að kynna sér málefni Norðurslóða með þátttöku á þinginu.

Hægt er að skrá sig til leiks á vefsíðu Arctic Circle en þar er einnig að finna heildardagskrá þingsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert