Röðin til fyrirheitna landsins

Önnur raðanna yfir brúnna séð frá Austurríki.
Önnur raðanna yfir brúnna séð frá Austurríki. mbl.is/Anna Marsý

„You have reached your destination,“ tilkynnir GPS-konan þegar við rennum inn í Freilassing í Þýskalandi á Volkswagen rúgbrauðinu Fridu. Hjartað í mér sekkur. Við fyrstu sýn er Freilassing allt að því óvenjulega óspennandi þýskur bær. Ég fer strax að sjá eftir því að hafa dregið kærastann minn með mér hingað. Við eigum aðeins fáeina daga eftir af hringferð okkar um Þýskaland og þurftum að sleppa innliti á Októberfest í München til þess að ég gæti tekið mér frí frá fríinu, en svo er hér ekkert að sjá.

Freilassing stendur við landamæri Þýskalands og Austurríkis. Blaðamannafulltrúi Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna í Þýskalandi hafði ráðlagt mér að koma við hér til að sjá aðstæður flóttamanna á landamærunum með eigin augum en bærinn virðist líflaus með öllu. Það er ekki fyrr en við komum að lestarstöðinni sem bera fer á sérstöðu hans.

Um 20 þungvopnaðir lögreglumenn spígspora um stöðina sem þó er aðeins á við Hlemm að stærð. Í einu horni brautarpallsins standa borð með kúfuðum kössum af mat, fötum og hreinlætisvörum og sjálfboðaliðar í endurskinsvestum keppast við að endurraða og stafla vistunum. Þar er á ferðinni Facebook-hópurinn FreilassingHilft sem var stofnaður af fjórum háskólanemum  13. september, daginn eftir að Þýskaland tók upp landamæraeftirlit við Austurríki. Sem stendur er ekkert flóttafólk á stöðinni.

„Við vitum aldrei hvenær næsta lest kemur,“ segir Stephan Hohenadl, nýútskrifaður fjölmiðlafræðinemi og einn af forsprökkum hópsins. „Lögreglan segir að næsta lest komi klukkan tíu í kvöld sem þýðir að hún kemur líklega um klukkan ellefu. Stundum koma lestir óvænt og við fáum bara fimm mínútna fyrirvara.“

Hohenadl segir mikinn fjölda fólks leggja sitt af mörkum dagsdaglega með sjálfboðastarfi og að meirihluti matargjafanna komi frá einstaklingum frekar en fyrirtækjum og stofnunum.

„Flóttamennirnir eru svo geðugir,“ segir hann þegar ég spyr út í fólkið sem hópurinn aðstoðar. „Þeir þakka fyrir sig og brosa og eru ánægðir að vera komnir en auðvitað bíður þeirra ótryggt ástand.“

1.000 bedda vöruskemma

Hohenadl bendir mér á að finna McDonald‘s stað bæjarins, þar sé flóttafólk hýst. Þegar þangað er komið kemur í ljós að fólkið er ekki látið hírast innan um hamborgarabrælu og hamingjumáltíðir heldur í stærðarinnar vöruskemmu við hlið skyndibitastaðarins. Nálægð hans er þó eitthvað kaldhæðnisleg: Velkomin til Vesturlanda, þar sem transfitusýrurnar flæða.

Nokkrir lögreglumenn standa vaktina við vegatálma utan við vöruhúsið á meðan félagar þeirra slappa af aftan í opnum lögreglubíl. Á bílastæði við hlið vöruhússins eru hermenn í óða önn við að setja saman hillur á meðan sjálfboðaliðar fara í gegnum fatahrúgur. Tveir hermenn æða um og spyrja viðstadda hvort þeir hafi séð fjögur vörubretti af klósettpappír sem virðast hafa týnst í flutningum milli staða. Nóg er af mannskap en eina flóttafólkið sem ég sé er lítill hópur fólks sem er sópað út úr stórri lögreglurútu og inn í vöruhúsið.

Einn sjálfboðaliðanna, námsmærin Anna Körner, segir mér að vöruhúsið hafi áður verið húsgagnalager. Í dag hýsir það hinsvegar um 1.000 bedda og er í raun einskonar biðstöð fyrir flóttafólk. Fólkið er flutt þangað frá landamærunum og dvelst þar í 4 til 24 klukkustundir þar til það er ferjað til flóttamannamiðstöðva víða um Þýskaland.

Lögreglumennirnir á staðnum tala litla ensku en eftir að ég veifa blaðamannaskírteininu mínu samþykkja þeir að hringja í blaðamannafulltrúann og athuga hvort hann geti rætt við mig.

Á meðan ég bíð sé ég lögreglumenn leiða flóttadreng, á að giska 12 ára, inn í aftursæti lögreglubíls og aka á brott. Hann er í langermabol, gallabuxum og strigaskóm og er með lítinn, tóman bakpoka á bakinu. Hann heldur þéttingsfast um reimar pokans og þegar hann sest inn í lögreglubílinn mætast augu okkar. Hann er fyrri til að líta undan. Ég skammast mín fyrir glápið enda virðist ég hafa verið sú eina til að veita honum sérstaka athygli. Fyrir Körner og félögum eru slíkar uppákomur nefnilega orðnar allt að því hversdagslegar.

„Stundum eru börn undir 18 ára aldri ein hérna. Lögreglan kemur öðruvísi fram við þau, þau eru ekki höfð með hinu flóttafólkinu,“ segir hún. „Það er betra þannig.“

Á flóttamannasafaríi

Lögreglan vill ekki hleypa mér inn í vöruskemmuna. Aðeins blaðamannafulltrúinn getur gert það og hann kemst ekki frá sem stendur. Mér er sagt að fara að brúnni yfir landamærin og spyrja um Ludwig. Ég hyggst þakka einum lögreglumannanna fyrir aðstoðina og rétti fram höndina en hann vísar lófunum til himins. „Þú vilt ekki taka í þær,“ segir hann og nikkar í átt að vöruskemmunni. „Allir sýklarnir.“

Ég hoppa úr bílnum áður en við komum að brúnni, fer síðasta spölinn fótgangandi. Það virðist viðeigandi. Næst mér er fjöldi af lögreglubílum, lögreglumönnum, rútum og stórum tjöldum. Hinum megin við landamærin eru líka tjöld en minni, kúlutjöld áþekk þeim sem eru skilin eftir í hrúgum í Herjólfsdal eftir verslunarmannahelgina. Á gangstéttunum sitthvorum megin á brúnni eru langar raðir að vegatálmum lögreglu.

Umferðin yfir til Austurríkis gengur löturhægt en þó ekki vegna landamæraeftirlitsins enda er það alfarið bundið við umferðina frá Austurríki. Fólkið sem keyrir á móti straumnum er að virða fyrir sér fólkið í röðunum. Það er á flóttamannasafaríi. Margir taka u-beygju stuttu eftir að komið er yfir landamærin og fara beint aftur í röðina yfir til Þýskalands. Ég reyni að hrista af mér tilhugsunina um að ég sé sjálf í útsýnistúr, áhorfandi að annarra eymd, og held göngunni áfram.

Ég finn blaðamannafulltrúa lögreglu, Manfred Ludwig, á miðri brúnni. Hann bendir mér á raðirnar. Sú vinstri er þéttskipuð en þeirri hægri hefur verið skipt niður í hólf með löngum strimlum merktum lögreglunni. Í hverju hólfi eru um 20 manns. 

„Þessi hægra megin er fyrir fjölskyldur og konur. Þessi vinstra megin er fyrir unga einstæða karlmenn. Við tökum tíu til fimmtán flóttamenn í einu inn í tjald og leitum á þeim eftir vopnum,“ segir Ludwig. „Eftir það flytjum við þá í næsta tjald þar sem sjálfboðaliðar gefa þeim mat og drykk. Svo eru þeir fluttir í rútuna að vöruskemmunni þar sem við tökum fingraför til að komast að því hvort fólkið sé eftirlýst eða hafi sótt um hæli annars staðar. Svo gengst það undir læknisskoðun.“

Ludwig segir mikið hafa verið um blaðamenn á svæðinu og að margir stórir erlendir fjölmiðlar hafi heimsótt brúna frá því að landamæraeftirlitið var tekið upp. „En ég held að áhuginn fari þverrandi.“

Grátið við hver landamæri

Ég held uppi blaðamannaskírteininu mínu þegar ég geng fram og til baka yfir brúna til Austurríkis en það virðist óþarfi. Verandi ljóshærð og föl eftir íslenskt sumar í skrifstofuvinnu sting ég nokkuð í stúf við flóttafólkið og lögreglan gefur mér lítinn gaum. Um leið og ég bregð fæti yfir landamærin heyrast gleðihróp  og blístur frá hópi karlmanna í röðinni hægra megin. Sumir taka jafnvel myndir af mér á símana sína. Venjulega myndi slíkt breim leggjast illa í mig en í þetta skipti nýti ég tækifærið og spyr mennina hvort einhver þeirra tali ensku. Þeir eru fljótir að benda mér á einu konuna í hópnum, Ritu Azar.

Azar sem er sýrlensk er í röðinni ásamt fjölskyldu sinni, tíu fullorðnum og þremur börnum. Hún er um þrítugt og er fædd og uppalin í Damaskus.
„Sýrland er of hættulegt núna. Ég starfaði í ferðamannageiranum en það er auðvitað ekki mikið um ferðamenn þar núna,“ segir hún og brosir út í annað. Hún segir fjölskylduna vonast til að finna sér nýjan og öruggari samastað í Þýskalandi eða Hollandi en að höfuðmáli skipti að þau verði saman og maður við hlið hennar tekur æstur undir. „Yes, yes! Together!“

Áður en ég kveð hópinn fara meðlimir hans fram á að ég taki sjálfsmynd með honum. Ég á í mestu vandræðum með verkefnið enda þykir mér furðulegt að taka „selfí“ í þessum aðstæðum. Hópurinn flissar að klaufalegri myndatökunni og gleðin kemur mér á óvart. Það er enda ekkert grín að neyðast til að flýja heimkynni sín en í bili virðast áhyggjurnar hafa vikið fyrir létti yfir að vera nánast komin á áfangastað.

Fjölskyldufaðir frá Afganistan segir mér að hann hafi ferðast í 50 daga til að komast til Þýskalands. Á meðan við sitjum utan við kúlutjaldið hans skammt frá brúnni réttir sjálfboðaliði níu ára syni hans sælgæti og eiginkonu hans tvo pakka af skrautlegum litlum sokkum. Kona úr næsta tjaldi kemur hlaupandi, baðandi út öllum öngum, og segir eitthvað á arabísku við eiginkonuna sem réttir höndina ákveðið fram fyrir sig með þrjá fingur á lofti. „Þrjú. Ég á þrjú börn,“ segir hún á ensku og þar með er það útrætt.

„Ég var verslunareigandi, en það er ekki lengur nokkra vinnu að fá í Afganistan vegna stríðsins. Í Þýskalandi eru fleiri möguleikar fyrir börnin, fyrir framtíðina,“ segir fjölskyldufaðirinn sem vill ekki gefa upp nafn sitt.

Sonur mannsins býður mér sælgæti. Systkini hans, tveggja og þriggja ára, eru bæði inni í tjaldinu hjá móður sinni og gráta hástöfum. Grátnum fylgja engin tár. Þau eru með fulla maga og vel klædd en eru þreytt, úrill og kannski smá hrædd. Ég lái þeim ekki.

„Börnin kunna mjög illa við þetta,“ segir faðir þeirra niðurlútur þegar hann sér að ég er að horfa inn í tjaldið.

„Það er grátur við hver landamæri og þau segjast vilja fara heim.“

„Daesh heldur að pabbi minn sé dáinn“

Samtal okkar er truflað af hópi fólks sem er nýkomið á svæðið og biður manninn um að aðstoð. Á þeim rúma klukkutíma sem ég hef verið við landamærin hefur nokkur fjöldi farið yfir til Þýskalands en mun fleiri hafa bæst í hópinn. Það er tekið að dimma og myrkrinu fylgir nokkur ókyrrð þar sem fæstir vilja standa í röð um nóttina. Tveimur mönnum aftast í röðinni tekst að útskýra fyrir mér með handapati og bjagaðri ensku að þeir vilji nota símann minn til að hringja í vin sinn í Þýskalandi. Hann svarar ekki. Vonbrigðin eru augljós. 

Aftan við mennina situr stúlka í kóngabláum jakka og lætur dæluna ganga á móðurmáli sínu. Móðir hennar situr við hlið hennar og kinkar þolinmóð kolli. Aðstæðurnar eru kunnuglegar og framandi í senn og ég finn mig knúna til að gefa mig á tal við þær mæðgur. Í ljós kemur að þær eru frá Írak og stúlkan, hin 13 ára Dilan, talar ágæta ensku.

„Ég er best í bekknum mínum,“ segir hún og ljómar af stolti þegar ég hrósa henni. Mæðgurnar bjóða mér að setjast niður hjá sér og ég tylli mér á hvíta íþróttatösku. 

Fjölskylda Dilan samanstendur af foreldrum hennar, tíu ára bróður og tveimur yngri systrum, sex og fjögurra ára. Fjölskyldan er frá Sinjar-fjöllunum þar sem liðsmenn Ríkis íslams myrtu þúsundir Jasída í byrjun ágúst 2014. Þau hafa verið á flótta æ síðan og Dilan biður mig sérstaklega um að birta ekki eftirnafn hennar eða myndir sem ég tek af henni og móður hennar. Hún óttast að vígamenn Ríkis íslams, sem hún kallar Daesh, kunni að sjá þær.  

„Daesh halda að pabbi minn sé dáinn. Þeir verða að halda það áfram.“

Fjölskyldan flúði upprunalega frá Írak til Sýrlands og þaðan til Tyrklands. Þar hafði hún búið við bágar aðstæður um nokkurt skeið þegar foreldrar Dilan ákváðu að halda til Þýskalands í von um betra líf. Ferðalagið tók rúman mánuð en komst nærri því að hljóta snöggan og hörmulegan endi strax í upphafi.

„Það voru 48 manns í bátnum. Hann var pínulítill. Við vorum að fara til Grikklands og þá...“ segir Dilan óðamála og leikur með handahreyfingunum hvernig báturinn fór á hliðina. „Ég var mjög hrædd. Ég sá systur mína í vatninu og hún hreyfðist ekki. Ég hugsaði „Systir mín er dáin! Systir mín er dáin.“ Allir voru hræddir, hún er svo lítil. En þetta stóð aðeins í skamma stund.

Það var allt í lagi með hana.“

Barin af serbneskri lögreglu

Yngri systur Dilan eru á vappi á meðan á samtalinu stendur, inn og út úr hólfi fjölskyldunnar í röðinni. Þær kippa sér ekkert upp við nærveru mína og eru óhræddar við að príla yfir mig eða strjúka annars hugar yfir hárið á mér og axlirnar þegar þær ganga framhjá. Það er gott að finna að ég hræði þær ekki en augnaráð þeirra er fjarrænt og ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort þær séu bara ófeimnar eða firrtar vissum hömlum sökum uppvaxtar á flótta.

Dilan lýsir atburðum ferðalagsins frá Tyrklandi af miklu æðruleysi og nákvæmni þó að henni sé mikið niðri fyrir. Hún segir frá gríðarlegum næturkulda og steikjandi hita, svefni undir berum himni, hungri, rútuferðum og hlaupum undan lögreglu. Hún leggur mat á hvernig tekið var á móti þeim á hverjum stað fyrir sig og minnist Grikklands með hlýju en vandar Serbum ekki kveðjurnar.

„Fólkið í Serbíu var ekki gott. Lögreglan barði okkur. Það voru vondir menn. Systir mín grét og grét á meðan þeir börðu föður minn. Ég sagði þeim að stoppa en þeir sögu nei. Ég sagði systir mín grætur en þeir sögðu nei. Það er alls ekki gott fólk í Serbíu. En hér er fólkið gott.“

Eins og til að undirstrika góðmennsku Austurríkismanna kemur fjölskyldufaðirinn til okkar með búnt af bönunum frá sjálfboðaliðunum og útdeilir þeim. Hann býður mér einn en ég kann ekki við að þiggja hann. Ég tek við lítilli karamellu í staðinn og hann brosir.

„Það er líka gott fólk í Þýskalandi,“ segir Dilan og veifar banananum sínum æst í átt að landamærunum. „Ég á frænku og frænda í Þýskalandi og við ætlum að búa hjá þeim.“

Hún segir ekkert líf í boði fyrir sig og fjölskyldu sína í Írak. Körlum, konum og börnum hafi verið slátrað eins og dýrum eða persónum í hryllingsmynd í umsátri Ríkis íslams auk þess sem fólk hafi dáið úr vökva- og næringarskorti.

„Við biðum eftir að Daesh myndi deyja en það gerðist ekki. Við biðum og biðum, við sváfum á götunum. Við gátum ekki brosað. Fólk dó á hverri einustu mínútu,“ segir Dilan æst. „Systir mín er fjögurra ára gömul og hún hefur séð dáið fólk. Blóð alls staðar. Alls staðar! Hún kann enn ekki að brosa. Ég hef séð höfuð á götunum. Við höfðum val, vildum við halda höfðinu eða deyja?!“

Von við draumalandið

Ég hjálpa Dilan og fjölskyldu hennar að færa sig áfram í röðinni í næsta hólf. Klukkan er að ganga níu og það er löngu orðið dimmt. Ég faðma mæðgurnar og reyni að láta ekki bera of mikið á tilfinningum mínum. Þær veifa á eftir mér þegar ég stíg út úr röðinni. Áður en ég kem að brúnni miðri man ég eftir karamellunni sem faðir Dilan gaf mér. Ég gríp hana úr buxnavasanum og rétti dreng sem stendur utan við eitt hólfið. Hann teygir höndina á móti en við missum hana og hún dettur beint ofan í holræsi.

Ég hef aldrei upplifað mig jafn gagnslausa og einmitt þarna, með tóma höndina útrétta, gapandi ofan í holræsið. Axlirnar á mér síga í vonleysi og ég andvarpa. Drengurinn skellir upp úr og stingur tungunni grallaralegur út um munnvikið. Þetta er víst ekki það versta sem hann hefur upplifað síðustu vikur.

Hlátur drengsins og jákvæðni viðmælenda minna er mér ofarlega í huga þegar ég skríð upp í rúmið aftan í Fridu seinna um kvöldið, á vel völdu bílastæði í nágrenni Freilassing. Andrúmsloftið við landamærin var spennuþrungið en fullt af von. Enginn þeirra sem ég ræddi við hafði orðið fyrir vonbrigðum við að sjá glitta í Freilassing í fjarska, Sjálfboðaliðar í Austurríki höfðu tryggt að allir væru vel klæddir og nærðir. Í augnablik mátti gleyma öllum fyrri hörmungum, þeim hörmungum sem enn dynja yfir samlanda þeirra og annað fólk á flótta sunnar í álfunni.

Hvort Þýskaland reynist draumalandið fyrir viðmælendur mína á enn eftir að koma í ljós. Ég renni upp svefnpokanum mínum, með höfuðið fullt af svífandi óvissu og skömm á eigin velmegun en hugga mig við það að Dilan fari að öllum líkindum glöð að sofa í nótt. Á bedda umkringd fjölskyldu sinni, í þýskri vöruskemmu í óvenjulega óspennandi bæ. Örugg – í bili. 

Stephan Hohenadl (t.v.) segir meginþorra birgðanna koma frá óbreyttum borgurum.
Stephan Hohenadl (t.v.) segir meginþorra birgðanna koma frá óbreyttum borgurum. mbl.is/Anna Marsý
Flóttafólk á lestarstöðinni í Freilassing þann 15. september síðastliðinn.
Flóttafólk á lestarstöðinni í Freilassing þann 15. september síðastliðinn. AFP
Hópur flóttafólks gengur frá lögreglurútu inn í vöruhúsið.
Hópur flóttafólks gengur frá lögreglurútu inn í vöruhúsið. mbl.is/Anna Marsý
Hermenn og sjálfboðaliðar setja saman hillur og flokka föt.
Hermenn og sjálfboðaliðar setja saman hillur og flokka föt. mbl.is/Anna Marsý
Bílarnir keyra hægt fram hjá röðinni og víða sjást andlit …
Bílarnir keyra hægt fram hjá röðinni og víða sjást andlit klesst upp við rúðurnar. mbl.is/Anna Marsý
Afgöngsk börn bíða skráningar við landamæri Þýskalands og Austurríkis.
Afgöngsk börn bíða skráningar við landamæri Þýskalands og Austurríkis. AFP
Rita Azar fyrir miðju ásamt hluta fjölskyldu sinnar.
Rita Azar fyrir miðju ásamt hluta fjölskyldu sinnar. mbl.is/Anna Marsý
Hópur drengja heldur bolta á lofti skammt frá landamærunum.
Hópur drengja heldur bolta á lofti skammt frá landamærunum. mbl.is/Anna Marsý
Dilan og móðir hennar vilja ekki sýna andlit sín af …
Dilan og móðir hennar vilja ekki sýna andlit sín af ótta við Ríki Íslams. Systur Dilan muna lítið annað en líf á flótta. mbl.is/Anna Marsý
Þrjár stúlkur púsla við landamæri Austurríkis og Þýskalands.
Þrjár stúlkur púsla við landamæri Austurríkis og Þýskalands. mbl.is/Anna Marsý
Mikið hefur fjölgað í röðinni þegar myrkrið tekur að færast …
Mikið hefur fjölgað í röðinni þegar myrkrið tekur að færast yfir og greina má meiri ólgu en áður á mannskapnum. mbl.is/Anna Marsý
Sýrlensk stúlka blæs sápukúlur á meðan hún bíður þess að …
Sýrlensk stúlka blæs sápukúlur á meðan hún bíður þess að komast yfir landamærin. AFP
Drengurinn brosti þó karamellan hefði horfið í ræsið.
Drengurinn brosti þó karamellan hefði horfið í ræsið. mbl.is/Anna Marsý
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert