Stöðug staða í dag á hlaupsvæðinu

Flóðið hefur skolað undan eystri stöpli Eldvatnsbrúarinnar.
Flóðið hefur skolað undan eystri stöpli Eldvatnsbrúarinnar. Sigurður Bogi Sævarsson

Staðan er að mestu óbreytt í og við Skaftá í dag. Mikið rignir á flóðasvæðinu og er spáð áframhaldandi úrkomu í vikunni. Eldvatnsbrúin stendur enn tæpt þar sem skolast hefur undan henni í hlaupinu. Ekki hefur enn flætt yfir þjóðveginn.

Sveinn Rúnar Kristjánsson yfirlögregluþjónn stendur enn vaktina en hann segir standa tæpt að það byrji að flæða yfir veginn. „Það er búið að rigna hressilega á okkur í dag. Það flæðir beggja megin þjóðvegarins við dyngjurnar og það hefur staðið í stað í dag. Það þarf þó ekki nema hækkun um u.þ.b. 20 cm áður en það flæðir upp á hann.“ Svo lengi sem vatnið finnur sér farveg í gegnum hraunið eru horfur á óbreyttu ástandi en verði breyting þar á er víst að flæði yfir veginn.

Óvíst með undirlag brúarstöpulsins

Mikið hefur skolast undan eystri stöpli Eldvatnsbrúarinnar en Sveinn segir ekki hægt að fullyrða um hvernig það hefur þróast í dag. Stöpullinn standi á hraunlagi en fyrir neðan það sé jarðvegur sem er neðar vatnslínu og ómögulegt að sjá þar undir. Fulltrúar frá Vegagerðinni og Viðlagatryggingum voru í dag á staðnum og skoðuðu brúna.

Eins og Snorri Zóphóníasarson hefur áður varað við er jökulvatn farið að renna í læki handan hraunsins. Ekki er fyrirséð hvaða afleiðingar það muni hafa en skemmdir gætu orðið á landi handan hraunsins.

Á vefsíðu Veðurstofunnar má sjá eftirfarandi tilkynningu veðurfræðings um lækina þar.

„Vatn lekur að jafnaði úr Skaftá út á Skaftáreldahraun. Hraunið virkar sem sía á jökulgorminn í vatninu. Vatnið kemur fram sem hreint lindarvatn undan hraunjaðrinum. Eftir 230 ára síuhlutverk er hraunið orðið fyllt að stórum hluta og yfirborðið farið að þéttast. Hlaupvatnið hefur nú náð niður fyrir brún Skaftáreldahraunsins. Vaxið hefur verulega í Tungulæk. Rennslið í honum er nú þrefalt meira en mest verður utan hlaupa. Einnig hefur vaxið mikið í Grenlæk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert