Átti erfitt með að hreyfa sig

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Vinnuslys varð í Grímsnesi á fimmtudag þegar maður féll af vörubílspalli. Verið var að draga inn rafmagnsvír á kefli sem var á vörubílspallinum. Vírinn festist og þegar um hann losnaði slóst hann í manninn sem féll um tvo metra af pallinum.

Eftir fallið átti maðurinn erfitt með að hreyfa sig og var fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæsluna á Selfoss. Ekki er vitað á þessari stundu um meiðsli mannsins. Starfsmaður Vinnueftirlitsins kom á vettvang til rannsóknar.

Aðfaranótt laugardags var brotist inn í mælingabát Samgöngustofu sem er í Landeyjahöfn. Báturinn var nýkominn á staðinn og hafði ekki verið sjósettur heldur var á kerru á bryggunni. Lögreglumenn á Hvolsvelli í samvinnu við lögreglu í Vestmannaeyjum hafa upplýst málið.

Í ljós kom að tveir einstaklingar sem höfðu farið í bílaleigubíl með Herjólfi til Eyja og til baka á laugardeginum stóðu að innbrotinu. Tvímenningarnir voru handteknir við Hvolsvöll á laugardag. Í bifreið þeirra fannst þýfi úr bátnum sem voru verðmæt mælitæki, flotgalli og ýmis konar verkfæri. Þeir viðurkenndu þjófnaðinn og voru látnir lausir að lokinni yfirheyrslu.

Eldur kom upp í dráttarvél á Þykkvabæjarvegi síðastliðinn miðvikudag. Slökkvilið var kallað á staðinn en búið var að slökkva eldinn þegar það kom. Eldsupptök voru við startara vélarinnar. Óverulegt tjón hlaust af eldinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert