Spyr um blóðgjöf samkynhneigðra karla

Blóðgjafar í blóðbankanum.
Blóðgjafar í blóðbankanum. Ljósmynd/ Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Brynhildur Pétursdóttir þingkona Bjartrar framtíðar hefur lagt inn skriflega fyrirspurn um réttinn til að gefa blóð. Spyr hún Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, hvað líði mati ráðgjafarnefndar um fagleg málefni í blóðgjafaþjónustu á því hvort heimila eigi samkynhneigðum körlum að gefa blóð og hver afstaða ráðherra til málsins sé.

Í umræðum um málið í apríl sagðist Kristján Þór mjög hlynntur því að blóðgjöf samkynhneigðra karlmanna væri heimiluð. Hinsvegar væri sjálfsagt að leita faglegra sjónarmiða og því væri væri málið hjá ráðgjafanefnd um blóðbankaþjónustu.

Í pistli á vef Bjartrar framtíðar segir Brynhildur að álit nefndarinnar láti á sér standa 

„Sérfræðingar hafa bent á að mun fleiri hópar geta smitast af HIV veirunni en karlar sem hafa sofið hjá körlum og áhættuhegðun skipti meira máli en kynhneigð fólks. Horfa verði á hvern blóðgjafa út frá sögu hans en ekki hvort hann tilheyri „áhættuhópi“ eins og þeir hafa verið flokkaðir,“ skrifar Brynhildur. 

Að mati Bjartrar framtíðar eru það sjálfsögð mannréttindi að mega gefa blóð óháð kynhneigð árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert