Vilja vita af hverju Jón Hákon sökk

Báturinn Jón Hákon BA 60.
Báturinn Jón Hákon BA 60. Ljósmynd/Jón Páll Jakobsson

Þrenn samtök krefjast þess að allt verði gert til þess að komast að raun um hvað olli því að Jón Hákon BA 60 sökk við Aðalvík þann 7. júlí síðastliðinn. 

Sjómannasamband Íslands, Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Farmanna-og fiskimannasamband Íslands vilja að málið verði rannsakað

Það verði gert svo hægt sé „að skera úr um svo óyggjandi sé, hvers vegna stöðugleiki skipsins skertist svo mikið sem raun ber vitni, þarf að ná bátnum af hafsbotni og rannsaka hvað raunverulega kom fyrir,“ segir í tilkynningu frá félögunum þremur. 

Frétt mbl.is: Þremur bjargað af kili skipsins

„Einnig hvetjum við alla aðila sem koma að öryggismálum sjómanna til samráðs um aðgerðir til bóta svo að svona slys endurtaki sig ekki. Sérstaklega með tilliti til þess að sjálfvirkur björgunarbúnaður hefur ekki virkað sem skildi í nokkrum tilvikum.

Við Íslendingar erum öfundaðir af öðrum þjóðum af þeim árangri sem við höfum náð í fyrirbyggjandi starfi þegar kemur að slysavörnum og öryggismálum sjómanna. Ekki má gleyma hve sjálfvirkur sleppibúnaður, bæði skotgálgar og sleppigálgar, hafa bjargað mörgum mannslífum frá því ákvörðun var tekin um að þannig búnaður yrði skyldaður í flest íslensk skip.

Alls ekki má varpa rýrð á kosti búnaðarins þannig að sjómenn upplifi hann sem ónothæfan. Taka þarf saman höndum og skoða ofan í kjölinn hvað þarf að laga svo þessi atvik endurtaki sig ekki,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert