Ekki hægt að misskilja ráðherrann

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, virtist marka nýja loftslagsstefnu í ræðu …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, virtist marka nýja loftslagsstefnu í ræðu hjá Sameinuðu þjóðunum á dögunum.

Það liggur ljóst fyrir hvað forsætisráðherra sagði um loftslagsmál hjá Sameinuðu þjóðunum og ekki var hægt að misskilja það, að sögn Árna Finnssonar, formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands. Ráðherrann sakaði Árna um að hafa „gert sér upp misskilning“ um orð sín. Árni segir málið ekki auka traust á stefnu Íslands.

Í ræðu á leiðtogafundi aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í New York um þar síðustu helgi sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, að Ísland hefði nýlega „heitið 40% samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030“. Þau orð vöktu nokkra athygli þar sem íslensk stjórnvöld höfðu fram að því aðeins lýst því yfir að þau myndu eiga samstarf við Evrópusambandið um að ná sameiginlega 40% samdrætti í losun og að samið yrði síðar um „sanngjarna hlutdeild“ Íslands í því markmiði.

Enga fyrirvara í þá veru var hins vegar að finna í ræðu forsætisráðherra. Árni fagnaði því orðum ráðherrans sem stefnubreytingu. Aðstoðarmaður ráðherra bar hins vegar fljótt til baka að Sigmundur Davíð hafi átt við að Ísland myndi draga úr sinni losun um 40%, eins og Norðmenn hafa einhliða ákveðið að gera.

Skrýtið að hjóla í almannasamtök úr ræðustól Alþingis

Í svari við fyrirspurn á Alþingi um málið í gær gagnrýndi Sigmundur Davíð svo Árna fyrir að „gera sér upp misskilning“ um það. Fullyrti hann að enginn sem viðstaddur var fundinn í New York hafi misskilið orð sín um losunarmarkmið Íslands.

„Það er svolítið skrýtið að ráðherra hjóli í almannasamtök úti í bæ úr ræðustóli Alþingis. Hann er svo sem ekkert að skýra þetta efnislega. Það liggur ljóst fyrir hvað hann sagði. Það var ekkert hægt að misskilja það,“ segir Árni, spurður út í þessi orð forsætisráðherra.

Hann bendir á að Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra og flokksbróðir forsætisráðherra, hafi í ræðu á allsherjarþingi SÞ einnig minnst á losunarmarkmið Íslands en þá með þeim fyrirvara að það væri í samfloti við önnur Evrópulönd.

„Svo einkennilegt sem það er þá fer Gunnar Bragi rétt með en segir ekki hvert markmið Íslands er en forsætisráðherrann segir hvert markmiðið er en fer ekki rétt með,“ segir Árni.

Vegi orð sín hjá SÞ á gullskál

Forsætisráðherra getur ekki borið fyrir sig að ræðu hans hjá SÞ hafi þurft að skilja í samhengi við starf sem hafði farið fram á fundinum áður, að mati Árna.

„Það er alla jafna þannig þegar ráðamenn tala hjá Sameinuðu þjóðunum fyrir hönd Íslands verða menn að vega sín orð á gullskál vegna þess að það má ekkert fara á milli mála hver stefna Íslands er. Hún er ekki alveg á hreinu. Erlend sendiráð á Íslandi hljóta að fylgjast með þessu til dæmis,“ segir Árni.

Sigmundur Davíð sagði einnig á Alþingi í gær að engin þjóð stæði sig betur í umhverfismálum en Íslendingar og því hlustuðu aðrar þjóðir þegar þeir ræða þau.

„Þetta er nú ekki til þess fallið að auka traust á stefnu Íslands,“ segir Árni.

Orðrétt sagði Sigmundur Davíð í ræðu sinni á ensku:

[...]  I am optimistic that we will see an excellent result from COP21, indeed Iceland recently pledged a 40% reduction of greenhouse gas emissions by 2030.

Ræða forsætisráðherra hjá Sameinuðu þjóðunum

Ræða utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna

Fyrri fréttir mbl.is:

Enginn í New York misskildi Sigmund

„Afdráttarlausari um minni losun“

40% með Evrópusambandinu

Ekki innistæða fyrir yfirlýsingunni

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert