Fá ekki pláss þegar dagmóðir hættir

Færa þarf götu og fella tré ef stækka á leikskólann …
Færa þarf götu og fella tré ef stækka á leikskólann Birkilund í Varmahlíð. Eggert Jóhannesson

Foreldrar barna í Akrahreppi og Skagafirði fá ekki pláss fyrir börnin á leikskólanum Birkilundi þegar dagmóðir hættir störfum í lok þessa mánaðar. Leikskólinn er fullnýttur í dag og eru þar 35 börn. Foreldrarnir íhuga að hætta að vinna til að sinna börnum sínum eða flytja jafnvel í annað sveitarfélag þar sem börnin fá pláss á leikskóla.

Steinunn Arnljótsdóttir, leikskólastjóri á Birkilundi, segir að stækkun leikskólans hafi verið rædd í sveitarfélögunum tveimur í nokkur ár. Ljóst eftirspurn eftir plássum í skólanum er meiri en framboð og þá vantar einnig aðstöðu fyrir starfsfólk. Steinunn segir að hægt væri að fylla tíu rými til viðbótar, sex þegar í stað og fjögur til viðbótar um áramótin.

Leikskólinn er staðsettur í Vatmahlíð og var vígður í lok janúar árið 1999. Hann tók við af leikskólanum Hvannahlíð sem var starfræktur frá árinu 1982. Haustið 2004 fékk leikskólinn til afnota sumarhús sem stendur við hornið á lóðinni.

Þarf að færa götu og fella skóg

Tvær hugmyndir hafa verið til skoðunar hjá sveitarfélögunum. Annars vegar er verið að skoða þann möguleika að færa leikskólann inn í húsnæði grunnskólans í Varmahlíð. Hins vegar að byggja við leikskólann Birkilund en til að það sé mögulegt þarf að færa til götu og fella hluta af skógi.

Tillögurnar hafa verið til umræðu hjá sveitarstjórnum Skagafjarðar og Akrahrepps. Steinunn segir að meiri vilji sé hjá sveitarstjórn Skagafjarðarhrepps að færa starfsemina í húsnæði grunnskólans en Akrahreppur vilji heldur byggja við skólann. „Þetta hefur verið til umræðu í mörg ár,“ segir Steinunn.

Börnin leiki í félagsheimilinu

Steinunn skrifaði pistil sem birtur var á Feyki á sunnudag. Þar segir að um neyðarkall sé að ræða um aðstoð við að finna húsnæði til bráðabirgða og einnig varanlega lausn á húsnæðismálum leikskólans í Varmahlíð.

„Neyðarkallið er komið til vegna þess að í sumar tók til starfa dagmóðir. Hún treystir sér ekki til að halda áfram og ætlar að hætta. Börnin sem hafa verið hjá henni þurfa því pláss,“ segir Steinunn og segir að foreldrar barnanna íhugi að hætta að vinna eða flytja úr sveitarfélaginu vegna þess að þau geta ekki fengið pláss fyrir börnin á leikskólanum.

Eftir að pistillinn var birtur barst Steinunni hugmynd um að nýta tvö félagsheimili sem bæði eru í um tíu kílómetra fjarlægð frá leikskólanum. Bendir Steinunn á að fyrirkomulagið væri heldur óhagkvæmt þar sem foreldrar þyrftu ef til vill að keyra annað barnið á leikskólann og hitt í aðstöðu hans í félagsheimilinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert