Lagasetning eða bílasala?

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Heiða Kristín Helgadóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, vakti athygli þingheima á því hvernig Alþingi fer með nærumhverfi sitt við umræður um störf þingsins í dag, því sem hún lýsir sem „alvarlegu hugsunarleysi á landnýtingu Alþingis í miðborginni.“

Hún segir Alþingi hægt og bítandi vera að leggja undir sig, í fullkomnu heimildarleysi og í óþökk borgaryfirvalda, uppbyggingarreit við Vonarstræti. Reiturinn er notaður undir bílastæði fyrir þingmenn og starfsfólk þingsins, nokkuð sem er Heiðu Kristínu ekki að skapi.

Hún segir tafir vissulega hafa orðið á framkvæmdum á reitnum, en það réttlæti að hennar mati ekki að Alþingi noti svæðið undir bílastæði. „Nýtingarmöguleikar reitarins eru miklir og ég hvet forseta til að beita sér fyrir því að reiturinn verði notaður þannig að sómi sé að.“

Hún segir að Alþingi og þeir sem þar starfi eigi að vera öðrum til fyrirmyndar þegar kemur að því að nýta aðra ferðamáta en einkabílinn. Hún lagði áherslu á að hún mæltist ekki til þess að einkabíllinn væri aldrei notaður, heldur að aðrir kostir væru einnig skoðaðir. „Eigi að taka þau lög sem við setjum trúanleg verðum við að ganga á undan með góðu fordæmi,“ sagði Heiða Kristín. „Rannsóknir og dæmin hafa sannað að eftir því sem innviðir aukast fyrir bíla, þeim mun meira fjölgar bílum,“ sagði Heiða Kristín.

„Þessi uppbyggingarreitur hefur verið innan girðingar um mjög langan tíma og setur svip sinn á umhverfið allt. Það eru margar leiðir færar í þessu og það má gjarnan opna þetta svæði upp og nýta tímabundin úrræði sem myndu gera þetta umhverfi mannvænna og mun betra,“ sagði hún á Alþingi í dag.

„Svo finnst mér þetta líka vera spurning um sjálfsvirðingu Alþingis. Fyrir mér, horfandi á þetta svæði utanfrá, ef ég vissi ekki betur, þá væri ég ekki viss um hvort hér færi fram lagasetning fyrir landið allt og því til heilla eða bílasala,“ sagði Heiða Kristín. Hún sagði enga ástæðu til að bæta þessum bílastæðum við þau 96 stæði sem þingmenn og starfsfólk þingsins hefði þegar aðgang að og afnot af.

Heiða Kristín Helgadóttir.
Heiða Kristín Helgadóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert