Leitarvél fyrir VW-eigendur

Verksmiðjunúmer bifreiða má finna á yfirbyggingu þeirra eða í skráningarskírteini.
Verksmiðjunúmer bifreiða má finna á yfirbyggingu þeirra eða í skráningarskírteini. Hekla

Búið er að koma upp þjónustusíðum fyrir eigendur bifreiða frá Volkswagen þar sem þeir geta flett upp hvort að bifreið þeirra innihaldi hugbúnaðinn sem þýski bílarisinn notaði til að svindla á útblástursprófum. Haft verður samband við viðskiptavini sem málið varðar fljótlega, að því er segir í tilkynningu frá Heklu.

Þjónustusíðurnar er að finna bæði á skoda.is og volkswagen.is. Þar geta viðskiptavinir gengið úr skugga um hvort að bílar þeirra innihaldi hugbúnaðinn. Aðeins þarf verksmiðjunúmer bílsins til þess að fletta honum upp en það er að finna í skráningarskírteini og á yfirbyggingu bílsins.

„Haft verður samband við hvern og einn viðskiptavin sem málið varðar eins fljótt og auðið er. Auk leitarvéla á þjónustusíðum er einnig að finna mikilvæg svör um framvindu mála hjá Volkswagen Group en upplýsingar eru uppfærðar reglulega,“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur er bent á að ákveðins misskilnings hafi gætt í umræðu síðustu daga þar sem rætt hafi verið um útblástur koltvísýrings í tengslum við mál dísilvéla EA189.

„Hið rétta er að hugbúnaðurinn sem um ræðir olli frávikum á gildum fyrir köfnunarefnisoxíð (NOx) meðan útblástursprófið var framkvæmt en ekki CO₂. Ólíkt CO₂ hefur NOx útblástur ekki áhrif á innflutnings- og bifreiðagjöld,“ segir í tilkynningunni.

Bein slóð á leitarvél Volkswagen

Bein slóð á leitarvél Skoda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert