Stærsta ráðstefna sinnar tegundar á Íslandi

Ráðstefnan verður mikið fyrir augað.
Ráðstefnan verður mikið fyrir augað. Ljósmynd/ Mads Nissen

Dagana 23.-24. október 2015 standa Ljósmyndarafélag Íslands og Blaðaljósmyndarafélag Íslands saman að einni stærstu ljósmyndaráðstefnu sem haldin hefur verið hérlendis.

Ráðstefnan er ætluð öllu atvinnu- og áhugafólki í ljósmyndun og verður haldin á Grand Hótel Reykjavík í þremur sölum.

Meðal staðfestra fyrirlesara eru Mads Nissen, eigandi sigurmyndarinnar World Press Photo 2014 og Janette Beckman, drottning hiphop ljósmyndunar auk fjölda annarra innlendra og erlendra sérfræðinga.

Ráðstefnan hefst á föstudagskvöldi með opnunarfyrirlestri hins margverðlaunaða Mads Nissen og að honum loknum býður Canon til kokteils í ráðstefnusal Nýherja.

Á laugardeginum standa ráðstefnugestum til boða 15 mismunandi fyrirlestrar sem haldnir verða í þremur mismunandi sölum og fjalla um allt frá Dacueru týpum til nýjustu framfara í stafrænum myndflögum og ætti allt áhugafólka að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

 Samhliða ráðstefnunni verður haldin sýning þar sem fyrirtækjum gefst einstakt tækifæri á að kynna sínar vörur og þjónustu fyrir stórum hópi atvinnu- og áhugaljósmyndara. Í tilkynningu segir að markmiðið sé að hægt verði að kynna sér allt það helsta hvort sem er í búnaði, prentþjónustu eða annarri þjónustu fyrir ljósmyndara.

„Við viljum búa til vettvang fyrir þá sem þjónusta ljósmyndara til að koma saman og sýna sig og sína þjónustu. Gert er ráð fyrir 200 þátttakendum og leigður hefur verið sér salur fyrir sýnendur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert