Svína- og kjúklingabændur opni dyr sínar

Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði svokallaðan verksmiðjubúskap að umtalsefni sínu í ræðu sinni á Alþingi í dag. Hún hvatti svínabændur til að opna dyr sínar fyrir almenningi.

„Þeir sem stunda svokallaðan verksmiðjubúskap eiga við mikinn vanda að etja um þessar mundir. Yfir greininni hvílir skuggi eftir að í ljós hefur komið alvarleg brot á lögum um dýravelferð,“ sagði Elín í ræðu sinni við umræður um störf þingsins. „Það er ekki ofmælt að almenningur sé í hálfgerðu áfalli eftir að upp komst um þær aðstæður sem svín búa oft og tíðum við og voru alls ekki í lagi í mörgum tilfellum samkvæmt úttekt Matvælastofnunar.“

Hún sagði raunhæft að neytendur muni hugsa sig tvisvar um áður en þeir kaupa umrætt kjöt. Það sé ljóst að verksmiðjubúskapur þar sem dýr líða þjáningar í þeim tilgangi að ná niður verði verður aldrei ásættanlegur.

„Ég spái því að í kjölfar þessara tíðinda muni koma fram skýr krafa frá neytendum um að þeir vilji að það kjöt sem þeir kaupa sé vottað þannig að fram komi að það sé framleitt með hætti sem samræmist lögum um dýravelferð. Einnig er afar mikilvægt að neytendur geti á umbúðum vöru séð hvaðan kjötið kemur sem notað er í pylsur, álegg o.fl. Í fyrsta lagi: Er þetta innlent eða erlent kjöt? Í öðru lagi: Kemur kjötið frá búum sem hlotið hafa gæðavottun í dýravelferð?“ spurði Elín á Alþingi í dag.

Hún hvatti svína- og kjúklingabændur til að opna bú sín, bjóða almenningi í heimsókn og útskýra hvernig aðbúnaður dýranna er og ræða opinskátt hvernig betur megi fara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert