Loftlínan milli Hellu og Hvolsvallar tekin niður

Línan tekin niður í dag.
Línan tekin niður í dag. Landsnet

Framkvæmdir standa nú yfir á vegum Landsnets við að fjarlægja gömlu loftlínuna milli Hellu og Hvolsvallar. Hellulína 2 var ein sú elsta í raforkukerfinu hérlendis, reist árið 1948, og lauk hún hlutverki sínu á dögunum þegar 13 kílómetra langur 66 kV jarðstrengur sem lagður var í sumar leysti hana af hólmi.

Samkvæmt tilkynningu frá Landsneti var byrjað á að fjarlægja línuna Hellumegin þar sem hún liggur yfir þjóðveginn við hringtorgið í miðjum bænum. Nutu starfsmenn Landsnets aðstoðar lögreglu við að stýra umferðinni á meðan leiðarar voru fjarlægðir af línunni á þessum kafla. Í framhaldinu var svo hafist handa við að vinda inn leiðarana og taka þverslár af möstrunum og fella möstur og er áhersla lögð á að fjarlægja jafnóðum allt efni sem til fellur samhliða því að línan er tekin niður.

Áætlað er að fyrsta áfanga verksins, frá Hellu að afleggjaranum að Gunnarsholti, verði lokið fyrir helgi og í framhaldinu verður síðan öll línan til Hvolsvallar tekin niður.

Tilkoma jarðstrengsins milli Hellu og Hvolsvallar hefur bæði aukið flutningsgetu og afhendingaröryggi raforku á svæðinu auk þess sem mikil ásýndarbreyting á sér nú stað þegar gamla loftlínan hverfur. Það á ekki síst við í miðbænum á Hellu þar sem línan lá áður yfir þjóðveginn og hringtorgið fyrir framan stjórnsýsluhúsið og framan við nýja hótelið austan við hringtorgið.

Landsnet
Landsnet
Landsnet
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert