Afhentu spónastokk frá 17. öld

Þann 5. október fékk Þjóðminjasafn Íslands afhentan útskorinn spónastokk frá 17. öld en það var Örn Arnar ræðismaður Íslands í Minnesota sem hafði milligöngu að afhendingunni. Stokkurinn var í eigu Vesterheim Norwegian-American Museum í Iowa í Bandaríkjunum. Þar er mikið safn norskra gripa en undanfarið hafa forráðamenn safnins grisjað og losað sig við þá gripi úr safneigninni sem ekki þóttu eiga þar heima.

Örn Arnar kom málum svo fyrir að stokkurinn kæmist til sinna  fyrri heimkynna. Þó hvorki sé vitað hvenær né hvaðan gripurinn kom til Vesterheim safnsins þá er höfðaletrið og kvennanafnið á stokknum óyggjandi vitnisburður um að stokkurinn sé íslenskur. Á hliðar stokksins er skorið með höfðaletri: SIGRIDUR OLAFSDOTTIR A MIG OG en ofan á lokið er skorið með skiljanlegra letri: ANO 1655: / ÞAN 9.D

Spónastokkar er fremur fágætir gripir en í Þjóðminjasafninu voru fyrir fjórtán spónastokkar sem er lítið miðað við t.d. fjölda  rúmfjala sem safnið varðveitir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert