Ódýr leið fyrir kröfuhafana

Peningaseðlar Íslenskir Dollarar og Bresk pund
Peningaseðlar Íslenskir Dollarar og Bresk pund mbl.is/Árni Sæberg

Kröfuhafar föllnu bankanna hafa samþykkt að greiða samtals 334 milljarða króna til ríkissjóðs í stöðugleikaframlög til þess að komast hjá því að greiða 39% stöðugleikaskatt. Það samsvarar 15% skatti á eignir bankanna. Þetta kemur meðal fram í bréfi sem samtökin Indefence hafa sent efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Rifjað er upp í bréfinu að í kynningu stjórnvalda fyrr á árinu um afléttingu gjaldeyrishafta hafi komið fram að stöðugleikaskatturinn myndi skila 850 milljörðum króna. Að teknu tilliti til frádráttarliða yrði upphæðin 690 milljarðar. Það stefndi því í að stöðugleikaframlög bankanna yrðu ódýr leið fyrir kröfuhafa þeirra út úr fjármagnshöftunum. Einnig hafi komið fram að hagsmunir almennings yrðu settir í forgang og að stöðugleikaskatturinn og stöðugleikaframlögin ættu að tryggja hagsmuni þjóðarbúsins með sambærilegum hætti.

Bent er á að samþykkt stöðugleikaframlaganna muni þýða að kröfuhafar bankanna fái að taka yfir 500 milljarða króna út úr íslensku hagkerfi á næstu árum í erlendum gjaldeyri. Stöðugleikaskatturinn þýddi hins vegar að kröfuhafarnir fengju engan gjaldeyri frá Íslandi. Þar sem lífskjör almennings væri beintengd gjaldeyrisöflun væri ljóst að samþykkt stöðugleikaframlaganna þýddu skert lífskjör hér á landi. Um miklar fjárhæðir væri að ræða sem til að mynda næmi tvöföldu virði Landsvirkjunar.

Hagsmunir kröfuhafa eða almennings í forgang?

Samþykkt stöðugleikaframlaganna þýddi að kröfuhafar fengju að fara með fjarmuni sína út úr fjármagnshöftunum. Ef hagsmunir almennings ættu að vera í forgangi hlyti höftunum einnig að vera létt af honum líka eða að minnsta kosti að raunhæf áætlun lægi fyrir um það með hvaða hætti það yrði gert. Annars væri ekki hægt að tala um að hagsmunir almennings væru settir í forgang. Ein leið til þess væri svokölluð greiðslujafnaðargreining.

Með þeirri leið, sem væri viðurkennd aðferðafræði sem meðal annars væri beitt af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, væri lagt mat á það hvort íslenska hagkerfið hefði efni á því að veita kröfuhöfum 500 milljarða króna í erlendum gjaldeyri án þess að lífskjör skertust. Slíkt mat væri nauðsynleg forsenda þeirra stöðugleikaskilyrða sem kröfuhafarnir þyrftu að uppfylla.

Hins vegar hafi komið fram á nýlegum fundi samtakanna með Má Guðmundssyni seðlabankastjóra að slík greining lægi ekki fyrir. Indefence hefði því óskað eftir því við AGS að þeir framkvæmdu slíka greiningu annars vegar vegna stöðugleikaskattsins og hins vegar vegna stöðugleikaframlaganna. NIðurstaðna væri að vænta á næstu vikum.

Bréf Indefence í heild

Fréttir mbl.is:

Már svarar Indefence

Vilja sjá stöðugleikaskilyrðin

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert