Fjárhagsvandi Landbúnaðarháskóla Íslands enn óleystur

Landbúnaðarháskóli Íslands.
Landbúnaðarháskóli Íslands. Davíð Pétursson

Uppsafnaður rekstrarhalli Landbúnaðarháskóla Íslands jókst um 37% milli áranna 2011 og 2014. Ríkisendurskoðun hvetur stjórnvöld til að tryggja að rekstur skólans rúmist innan fjárheimilda. Þá þarf að finna varanlega lausn á skuld skólans við ríkissjóð en hún nam 630 milljónum króna í árslok 2014. Þetta segir í frétt á vef Ríkisendurskoðunar.

Árið 2012 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um rekstrarvanda og erfiða fjárhagsstöðu Landbúnaðarháskóla Íslands. Uppsafnaður rekstrarhalli skólans nam þá um 317 milljónum króna og skuld hans við ríkissjóð um 694 milljónum króna. Í skýrslunni benti Ríkisendurskoðun á að um væri að ræða fjármuni sem Alþingi hefði aldrei samþykkt að verja til skólans. Stofnunin hvatti bæði mennta- og menningarmálaráðuneytið og skólann til að grípa til aðgerða til að vinna bug á þessum vanda. Tryggja yrði að rekstur skólans rúmaðist innan fjárheimilda. Þá hvatti Ríkisendurskoðun ráðuneytið til að finna varanlega lausn á skuld skólans við ríkissjóð.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að undanfarin ár hefur fjárhagsstaða skólans enn versnað þrátt fyrir viðleitni stjórnenda hans til að taka á vandanum. Þannig stóð uppsafnaður halli í um 433 milljónum króna í árslok 2014. Aftur á móti hefur skuld skólans við ríkissjóð minnkað lítillega en stóð þó í 630 milljónum króna í árslok 2014. Því ítrekar Ríkisendurskoðun framangreind hvatningarorð (ábendingar) til ráðuneytisins og Landbúnaðarháskólans.

Ráðstöfun eigna ekki í samræmi við lög og reglur

Í skýrslu sinni árið 2012 gagnrýndi Ríkisendurskoðun ákvörðun stjórnenda skólans árið 2009 um að stofna einkahlutafélag um búrekstur skólans og færa tilteknar eignir undir það. Taldi stofnunin að þessar ráðstafanir hefðu ekki verið í samræmi við lög og reglur. Á sömu forsendum gagnrýndi stofnunin ákvörðun stjórnenda Landbúnaðarháskólans um að selja hlutabréf skólans í fyrirtækinu Orf líftækni ehf. Ríkisendurskoðun telur aukinheldur að þessi viðskipti hafi verið til þess fallin að skaða hagsmuni ríkisins.

Árið 2012 hvatti Ríkisendurskoðun ráðuneytið til að skera úr um hvort reka ætti Landbúnaðarháskóla Íslands áfram sem sjálfstæðan opinberan háskóla eða sameina hann Háskóla Íslands. Í eftirfylgniskýrslunni kemur fram að unnið sé að stefnumörkun um háskóla og vísindastarfsemi á vegum ráðuneytisins sem til standi að leggja til grundvallar tillögum um framtíð Landbúnaðarháskólans. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að ljúka þessari vinnu sem fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert