Hótaði að klippa af henni fingurna

mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur framlengdi í dag gæsluvarðhald yfir karlmanni sem grunaður er um að hafa ráðist ítrekað á sambýliskonu sína. Hann hefur meðal annars otað töng að konunni og hótað að klippa fingurna af henni og oftar en einu sinni ráðist að henni með ofbeldi og líkamsmeiðingum.

Þá er maðurinn einnig grunaður um að hafa ráðist ráðist á konuna, hótað henni og brotið nálgunarbann eftir að fyrri brotin voru framin.

Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 10. júlí á þessu ári. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur segir að ljóst sé að maðurinn neyti örvandi fíkniefna sem veldur hömluleysi í hegðun sem bitnar á konunni.

Í ljósi þess megi ætla að maðurinn muni halda áfram brotum á meðan máli hans er ólokið sem og að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að verja fyrrum sambýliskonu hans. Maðurinn mun því sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 30. október. Þá sætir maðurinn einnig geðrannsókn og fer aðalmeðferð í málinu fram á næstu viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert