Ísland ekki uppfyllt ákvæði um flugsvæði

Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eru í Brussel í Belgíu.
Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eru í Brussel í Belgíu.

Eftirlitsstofnun EFTA sendi Íslandi í dag rökstutt álit þar sem Ísland hefur ekki uppfyllt ákvæði gildandi löggjafar um sameiginlega evrópska flugsvæðið að því er varðar þrjú aðskilin efni:

Til að tryggja að flugumferðarþjónusta sé veitt skyldar löggjöfin um sameiginlega evrópska flugsvæðið aðildarríkin til þess að tilnefna aðila sem ber ábyrgð á þjónustunni. Með tilnefningunni er tilteknum aðila falin ábyrgð á að veita flugumferðarþjónustu í afmörkuðu loftrými og ber aðildarríkinu sú lagalega skylda að skilgreina réttindi og skyldur þjónustuaðilans í því efni. 

Í löggjöfinni um sameiginlega evrópska flugsvæðið eru einnig reglur til að tryggja samvinnu milli deilda sem annast almennings- og herflug og bera ábyrgð á rekstrarstjórnun flugumferðar í loftrými viðkomandi aðildarríkis. Ennfremur er ríkjum skylt að tryggja sveigjanlega notkun loftrýmis. Vegna þessara skuldbindinga ber aðildarríkjunum að koma á fót vinnuhópi um stjórnun loftrýmis til að úthluta loftrými í samræmi við þau skilyrði og þá málsmeðferð sem við á.  

Loks er aðildarríkjum skylt að sjá til þess, að yfirvöld hafi nægilega getu til þess að tryggja eftirlit með öryggi allra aðila/stofnana sem starfa undir eftirliti þeirra. Í því felst að tryggja þarf nægjanlega fjármuni til þess að sinna eftirliti og aðgerðum sem skilgreind eru í viðkomandi löggjöf.

Rökstutt álit er annað skrefið í meðferð samningsbrotamáls. Hafi íslensk stjórnvöld ekki brugðist við innan tveggja mánaða getur ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert