Kaffið skammtað til Íslands

Nespresso kaffivélar.
Nespresso kaffivélar. Mynd/Wikipedia

Nespresso vélar hafa um árabil verið seldar hér á landi. Hafi notendur viljað kaupa upprunalega kaffið fyrir vélarnar, í staðin fyrir kaffi sem framleitt er af þriðja aðila hefur þurft að kaupa það gegnum vefsíðu fyrirtækisins eða í sérverslunum sem aðeins er að finna erlendis. Þangað til á þessu ári var ekki vandamál að panta vöruna á netinu, en í dag er það orðið langt og langsótt ferli. Þetta segir Margrét G. Floventz, en hún segir upprunalega kaffið og það sem selt er hér á landi frá þriðja aðila ekki vera sambærilegt í gæðum.

Áður var einfalt að panta á netinu

Margrét segir að áður hafi verið nokkuð einfalt að panta kaffið. Það hafi auðvitað tekið nokkra daga að fá það sent í pósti, en að þjónustan hafi verið góð og flestir eigendur vélanna hér á landi mjög sáttir við það.

Svo í vetur byrjuðu vandræðin þegar lokað var fyrir að hægt væri að pantað kaffið frá Íslandi. Segir Margrét að eftir bréfaskrif við fyrirtækið, sem staðsett er í Sviss, hafi hún fengið að vita að um tímabundna stöðu væri að ræða. Ekkert hefur hins vegar breyst og eigendur vélanna sem vilja upprunalega kaffið hafa átt í miklum erfiðleikum að nálgast það.

Gríðarlegt flækjustig

Margrét segir að seinna hafi komið lausn frá fyrirtækinu sem hún viti ekki enn hvort hún eigi að kalla fáránlega eða fyndna. Nú þarf að senda beiðni á fyrirtækið og fá pöntunareyðublað. Eyðublaðið þarf að prenta út, fylla og og kvitta undir, handskrifað. Þetta blað er svo ljósritað á tölvutækt form og sent til Sviss. Fyrirtækið útbýr svo reikning og sendir í tölvupósti og getur viðkomandi þá sent hefðbundna bankamillifærslu. Allt í allt, ferli sem tekur nokkra daga í stað þess að slá inn kreditkortanúmer og panta vöruna beint.

Búðirnar minna helst á skartgripabúðir

Þetta fyrirkomulag er með öllu óskiljanlegt að sögn Margrétar, en hún telur það tengjast einkaleyfamálum með vöruna í Evrópu. Þá veit hún til þess að söluaðilar hér á landi hafi óskað eftir að selja upprunalega kaffið í verslunum sínum en ekki hefur verið hlustað á þá. Bendir hún á að erlendis séu þessar kaffivélar og kaffið selt í sérverslunum sem líti helst út eins og skartgripabúðir og mikið sé gert úr íburði þar.

Margrét segir að eftir að hafa farið í gegnum þessa fyrirhöfn nokkrum sinnum hafi hún viljað fara af stað með lítið pöntunarfélag fyrir eigendur svona véla hér á landi til þess að koma í veg fyrir að allir væru að fara í gegnum sama vesenið og hún. Svörin frá fyrirtækinu úti hafi aftur á móti verið á þá leið að ekki mætti kaupa meira en ákveðið magn sem áætlað er á fjölskyldu. „Þetta er því skammtað,“ segir Margrét og hlær að fáránleika málsins.

Nespresso kaffivélar eru seldar hjá nokkrum sölufyrirtækjum hér á landi og kosta meðal annars frá 15 til 80 þúsund í Elko. Þar eru einnig seld kaffihylki fyrir umræddar vélar, en frá þriðja aðila. Margrét segir aftur á móti að mikill munur sé á því og upprunalegu vörunni. „Ég þekki engan sem vill frekar kaupa það,“ segir hún.

Nespresso hylkin sem svo erfiðlega gengur að kaupa.
Nespresso hylkin sem svo erfiðlega gengur að kaupa. Mynd/Wikipedia
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert