Sakaði Dag um að misnota aðstöðu sína

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Stórlega ámælisvert er að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, skuli nota aðstöðu sína sem embættismaður borgarinnar til þess að safna saman þúsundum netfanga, bæði af netfangalista borgarstarfsmanna sem og og frá almenningi, og nýta þau í persónulegum ávinningi sem stjórnmálamaður. Meðal annars til þess að gera árásir á pólitíska andstæðinga.

Þetta kom fram í ræðu Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur sem fram fór í gærkvöldi. Þar var meðal annars rætt um vikulega pistla Dags sem hann hefur sent meðal annars til borgarstarfsmanna og almennings en í þeim hefur hann meðal annars beint spjótum sínum að borgarfulltrúum minnihlutans.

Kjartan minnti á að borgarstjóri væri æðsti embættismaður Reykjavíkurborgar. Pólitískar árásir ættu ekki heima í pistlum sem borgarstjóri sendi frá sér sem slíkur. Það væru ekki aðeins pólitískir andstæðingar Dags í borgarmálunum sem hefðu orðið fyrir slíkum árásum af hans hálfu í vikupistlunum heldur einnig alþingismenn og jafnvel atvinnurekendur úti í bæ.

Benti Kjartan ennfremur á að hingað til hefði það ekki tíðkast að borgarfulltrúar nýttu aðgang sinn að netfögnum starfsmanna borgarinnar í pólitískum tilgangi sem þessum. Þá væri ljóst að þeir sem yrðu fyrir árásunum hefðu ekki tök á að svara fyrir sig á þessum sama vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert