Umkringd fólki sem grét af gleði

Fanney Björk er bjartsýn á betra líf, nú þegar barátta …
Fanney Björk er bjartsýn á betra líf, nú þegar barátta hennar fyrir lyfinu hefur loksins borið ávöxt. Ljósmynd/ Tómas Jóhannesson

Fanney Björk Ásbjarnardóttir segist hafa grátið af gleði þegar hún heyrði af því að barátta hennar fyrir því að fá lyfið Harvoni við lifrabólgu C hefði loksins borið ávöxt. Heilbrigðisráðherra tilkynnti í dag að allir þeir sem smitaðir eru á Íslandi muni geta fengið lyfið , sem er rándýrt, sér að kostnaðarlausu.

„Þetta eru bara stórkostlegar fréttir, ég varla trúi þessu ennþá,“ segir Fanney Björk sem hefur verið með lifrarbólgu C í 32 ár. Hún smitaðist af sjúkdómnum við blóðgjöf sem hún fékk árið 1983 eftir barnsburð.

Frétt mbl.is: 1.000 lifrarbólgusjúklingar fá lyf

Eins og áður segir er Harvoni rándýrt lyf og því er sjaldan á færi einstaklinga að festa kaup á því. Íslenska ríkið synjaði Fanney um meðferð með lyfinu og var sýknað í Héraðsdómi af stefnu hennar í september. Það kom henni því mikið á óvart þegar hún fékk góðu fréttirnar í morgun.

„Ég var í sjúkraþjálfun og síminn minn hringdi og hringdi. Ég skyldi ekkert í því, ég er yfirleitt ekki með símann á mér í sjúkraþjálfun. Dóttur mín vinnur sem talmeinafræðingur á hæðinni fyrir ofan og hún kom hlaupandi grátandi, allir í kringum mig voru grátandi og ég skyldi ekkert hvað var að gerast en þá voru allir búnir að heyra fréttirnar nema ég.

„Eins og mig sé að dreyma“

Dóttir Fanneyjar sem er fædd árið 1989 smitaðist einnig af veirunni annað hvort í móðurkviði eða í fæðingu. Mæðgurnar gengust báðar undir aðra lyfjameðferð sem bar árangur í tilfelli dóttur hennar en sjálf var hún í tvígang nær dauða en lífi sökum aukaverkana. Sú meðferð tekur 48 vikur en henni var hætt eftir 15.

„Ég vona að þetta verði betra, mér er sagt að þetta sé það svo ég er mjög bjartsýn og hlakka til að finna hvernig er að lifa venjulegu lífi og vera ekki alltaf veikur,“ segir Fanney.

„Ég get ekki einu sinni lýst því hvernig mér líður. Það er eins og mig sé að dreyma, þetta er dásamlegt.“

Hún segir erfitt að leggjast í baráttu gegn ríkinu sem einstaklingur en að hún hafi getað gert það með góðri aðstoð. Þó svo að hún vilji alls ekki eigna sér heiðurinn viðurkennir hún að fólkið í kringum hana, vinir, kunningjar, læknarnir og lögfræðingurinn hennar segi henni að hún eigi heiður skilinn. 

„Ég á allavega þátt í þessu og það er góð tilfinning að vita það,“ segir hún.

„Sigurinn er unninn og það er það sem skiptir öllu máli í dag. Þetta er stórkostlegt fyrir alla sem eru með lifrarbólgu C, að geta kannski farið að líta bjartari augum á tilveruna. Það er ekkert grín að vera veikur og vita að maður fái ekki lyf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert