13 skólar fá 335 þúsund evrur

Forsvarsmenn nýrra Erasmus+ samstarfsverkefna.
Forsvarsmenn nýrra Erasmus+ samstarfsverkefna. Ljósmynd/ Landskrifstofa Erasmus+

13 leik- grunn- og framhaldsskólar víðsvegar um landið skipta með sér styrk að upphæð rúmlega 335 þúsund evra til nýrrra Erasmus+ samstarfsverkefna. Skrifað var undir samninga við Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi í morgun.

Hæsti styrkurinn sem nemur 72 þúsund evrum rennur til Grandaskóla til verkefnis um náttúruvísindi og umhverfi í 1-4 bekk.

Erasmus+ samstarfsverkefni á sviði leik-grunn og framhaldsskóla eru verkefni milli tveggja eða fleiri skólastofnana til tveggja eða þriggja ára. Verkefnunum 13 sem nú hlutu styrk er stýrt frá öðru Evrópulandi en íslensku þátttökuskólarnir fá fjármagn til að standa straum af eigin þátttöku. Til viðbótar styrkti Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi fjögur sams konar skólaverkefni um rúmlega 332  þúsund evrur.  Þannig fara nú 17 verkefni af stað með þátttöku íslenskra skólastofnana.

Verkefnin sem hlutu styrk eru afskaplega fjölbreytt. Nokkur þeirra snúa að grunnfærni í læsi og stærðfræði, eitt verkefni snýr að jafnréttismálum og kynjafræði, annað að fjölmenningu, nokkur eru tengd raunvísindakennslu og vísindum og enn önnur snúa að því að hlúa að þeim sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu. Eitt verkefnanna tengist íþróttum og hvernig hægt er að nýta íþróttir til að hjálpa þeim börnum sem af ýmsum ástæðum verða utanveltu í samfélagi jafnaldra sinn. Nemendur á ólíkum aldri taka virkan þátt í mörgum verkefnum, s.s. í gegnum nemendaskipti.

Skólarnir sem hlutu styrki eru Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Garðaskóli, Hólabrekkuskóli, Glerárskóli Akureyri, Borgarholtsskóli, Grunnskólinn á Ísafirði, Leikskólinn Furugrund, Blásalir, Rimaskóli, Brekkuskóli, Grandaskóli, Grunnskóli Snæfellsbæjar og Hjallastefnan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert