Alvarleg staða kalli á breytingar

Staða í fjármálum Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga um land allt …
Staða í fjármálum Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga um land allt er alvarleg. mbl.is/Styrmir Kári

Borgarráð Reykjavíkur skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga til að tryggja að þeir séu í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögum eru falin. Þetta er gert í ljósi alvarlegrar stöðu í fjármálum sveitarfélaga um land allt.

Áskorunin var samþykkt á fundi borgarráðs í dag af öllum fulltrúum nema einum sem sat hjá við afgreiðsluna.

Reykjavíkurborg segir m.a. að það sé brýnt að undanþiggja sveitarfélög fjármagnstekjuskatti og virðisaukaskatti. Einnig að tryggja verði fjármögnun sveitarfélaga á málefnum fatlaðs fólks.

Í greinargerð með áskoruninni segir að bæjarstjórn Garðabæjar hafi samþykkt einróma í síðustu viku samhljóða ályktun og borgarráð beri nú fram. Búast megi við að fleiri sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fylgi í kjölfarið.

Í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014-2018 segir: „Sveitarfélögum skulu tryggðir nauðsynlegir tekjustofnar í samræmi við þau verkefni sem þeim eru falin í stjórnarskrá og lögum. Þeir skulu vera nægjanlega fjölþættir og sveigjanlegir í eðli sínu svo þeir geti staðið undir þeirri fjölbreyttu þjónustu sem íbúar þeirra kalla eftir.”

Borgarráð segir, að við núverandi aðstæður sé ekki hægt að halda því fram að tekjustofnar sveitarfélaga standi undir þessum markmiðum.

„Benda má á að hvergi innan OECD er að finna lægra hlutfall tilfærslna frá ríki til sveitarfélaga en á Íslandi. Enn fremur er ljóst að verði ekkert að gert mun rekstrarkostnaður sveitarfélaga hækka langt umfram tekjur þeirra á næstu mánuðum og því muni sveitarfélögin eiga erfitt með að standa undir hlutverki sínu og skyldum á næstu misserum.“

Nánar á vef Reykjavíkurborgar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert