Hverju átt þú rétt á við handtöku?

Allir þeir sem hafa nokkurn tíma horft á bandaríska glæpaþætti þekkja setninguna „You have the right to remain silent“ en það eru þó að sjálfsögðu ekki einu réttindi manns við handtöku.

Íslandsdeild Amnesty hefur dreift veggspjöldum víða á höfuðborgarsvæðinu með upplýsingum á íslensku, ensku og pólsku, um réttindi fólks við handtöku og skýrslutöku. Veggspjöldin eru myndskreytt af Hugleiki Dagssyni og nefnist átakið „Þinn réttur“. 

Þá hefur Íslandsdeild samtakanna jafnframt sett fram ítarlegar upplýsingar á vefsíðu samtakanna um margvísleg réttindi fólks í samskiptum við lögreglu.

Í fréttatilkynningu frá Amnesty segir að fræðsla um réttindi fólks, þar á meðal réttinum til sanngjarnar málsmeðferðar sé fyrirbyggjandi aðgerð gegn pyndingum sem enn viðgangast víða um heim. Er átakið hluti af herferðinni Stöðvum pyndingar sem Amnesty hrinti úr vör 13. maí 2014. 

„Með herferðinni er lögð áhersla á að ríki grípi til fyrirbyggjandi aðgerða til að sporna við því að pyndingar og ill meðferð þrífist. Ríkisstjórnir allra landa verða að sýna í verki að þær líði ekki pyndingar eða illa meðferð undir nokkrum kringumstæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert