Hvetur sveitarfélög til að breyta samningum

Morgunblaðið/Kristinn

Aðalfundur Félags hópferðaleyfishafa, sem haldinn var í gær, skorar á landshlutasamtök sveitarfélaga „að láta af einokunartilburðum í fólksflutningum og draga sig út úr beinum rútuakstri, enda alls ekki í verkahring samtaka sveitarfélaga að standa í áhættusömum ferðaþjónusturekstri af neinu tagi.“

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu félagsins.

„Þegar landshlutasamtök sveitarfélaga fengu einkaleyfi á umræddum akstri féllu þau í þá gildru að hefja rekstur á fólksflutningum á eigin reikning í stað þess að láta verktakana sjálfa standa og falla með sínum verkum. Síðan þá hafa Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi og á Austurlandi farið offari og orðið uppvís af lögbrotum og gert hvað þau geta til að tryggja að einkafyrirtæki geti ekki markaðsett og eða sinnt föstum ferðum víðs vegar um landið,“ segir í fréttinni.

Fundurinn lýsir yfir furðu sinni yfir að til séu þau sveitarfélög sem fagna því ekki heilshugar að sem flest fyrirtæki markaðssetji og flytji ferðamenn um þeirra landsvæði og hvetur sveitarfélögin til að breyta samningum þeim sem gerðir hafa verið svo tugir og hundruð milljóna falli ekki á útsvarsgreiðendur að ófyrirsynju.

Bent er á að á meðan ríkið hafði yfirumsjón með þessum málum þurftu fyrirtækin sjálf sem buðu í verkið að standa og falla með sínum tilboðum sem er mun heilbrigðara fyrirkomulag fyrir greinina sjálfa sem og fyrir skattgreiðendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert