SAS sækir á íslensku flugfélögin

AFP

SAS hyggst fljúga daglega hingað frá Kaupmannahöfn allt árið um kring. Þetta kemur fram í frétt Túrista.

Í dag er hægt að fljúga þrisvar til fimm sinnum á dag frá Keflavíkurflugvelli til Kaupmannahafnar en lengi vel hafa Icelandair og WOW air setið ein að flugleiðinni. Einu daglegu flug SAS hingað til lands síðustu ár hafa verið frá Osló og munu umsvif fluigfélagsins hér á landi því tvöfaldast á næsta ári.

SAS og Icelandair hafa átt náið samstarf um langt skeið og millilenda farþegar Icelandair t.a.m. oft í Kaupmannahöfn og halda þaðan áfram með SAS.

Samkvæmt Túrista dregur Trine Kroman Mikkelsen, talskona SAS, ekki dul á að með beina fluginu hingað geti SAS nú boðið íslenskum farþegum áframhaldandi flug frá Kaupmannahöfn.

Samkeppni SAS við íslensku flugfélögin er hinsvegar ekki aðeins bundin við Kaupmannahöfn því félagið ætlar einnig að hefja beint flug til Boston frá Kaupmannahöfn. Icelandair og nú WOW hafa hingað til verið einu norrænu flugfélögin í Boston.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert