Búrfellsvirkjun stækkuð á næsta ári

Í aprílmánuði á næsta ári er gert ráð fyrir að framkvæmdir verði hafnar við stækkun Búrfellsvirkjunar um 100 mw sem ráðgert er að skili Landsvirkjun 300 gígawattsstundum á ári. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir mikla eftirspurn eftir orku hjá smærri fyrirtækjum á Íslandi.

Stöðvarhúsið verður staðsett neðanjarðar í Sámsstaðarklifi sem er liður í að minnka umhverfisáhrif framkvæmdarinnar en virkjunin mun nýta vatnsrennsli sem hefur til þessa runnið fram hjá Búrfellsstöð ónýtt.

Gert er ráð fyrir að verkefnið komi til með að kosta á bilinu 13-15 milljarða króna og standa samningaviðræður við bankana um fjármögnun nú yfir.

Farið verður í útboð á vél- og rafbúnaði í virkjunina á næstu dögum og byggingarvinna verður boðin út í nóvember. Skipulagsstofnun hafði áður gefið út að framkvæmdin hefði ekki för með sér mikil umhverfisáhrif og því er framkvæmdin ekki inni í rammaáætlun.

Umsvif vegna framkvæmdarinnar verða töluverð og á næsta  ári má gera ráð fyrir að 100 starfsmenn vinni að stækkuninni og á fyrri hluta árs 2018 hækkar sú tala upp í 150. Síðar er gert ráð fyrir að hægt verði að stækka þennan hluta virkjunarinnar um 40 MW.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert