Um 100 ferðatöskur urðu eftir

WOW skildi um 100 ferðatöskur eftir á Spáni.
WOW skildi um 100 ferðatöskur eftir á Spáni. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Margir farþegar sem komu heim frá Alicante með WOW air í fyrradag gripu í tómt þegar þeir ætluðu að taka ferðatöskurnar sínar af færibandinu á Keflavíkurflugvelli.

Í ljós kom að um 100 ferðatöskur höfðu verið skildar eftir á Spáni. Magnús Finnsson og frú voru á meðal farþeganna frá Alicante. Hann fékk sína tösku en taska eiginkonunnar var skilin eftir.

„Þegar við vorum lent í Keflavík var okkur tilkynnt að talsvert af farangri hefði orðið eftir á Spáni og vorum við beðin afsökunar á því,“ sagði Magnús. Hann sagði að flugvélin hefði verið fullsetin og margir farþeganna eldra fólk. Þegar þau komu inn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fréttu þau að rúmlega eitt hundrað ferðatöskur hefðu ekki komið með flugvélinni.

Óhagstæð vindátt

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW Air, sagði að óhagstæð vindátt hefði valdið því að að létta þurfti flugvélina fyrir flugtakið frá Alicante og voru því um 100 ferðatöskur skildar eftir.

„Nú er verið að vinna í því að fá þessar töskur sem fyrst til landsins,“ sagði Svanhvít. Hún sagði að margir starfsmenn hefðu unnið að því í allan gærdag að koma töskunum heim. Fólk, sem ekki fékk töskurnar sínar, mætti vænta þess að fá þær allra næstu daga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert