Fjarvistir geta tafið rannsóknir

Lögreglumaður fyrir utan stjórnarráðið í morgun þar sem félagar í …
Lögreglumaður fyrir utan stjórnarráðið í morgun þar sem félagar í SFR, sjúkraliðar og lögreglumenn kröfðust bættra kjara. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Ekki liggur fyrir hversu margir lögreglumenn hafa tilkynnt sig veika í morgun. Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir ljóst að mannekla hafi áhrif á lögreglustörf, ekki bara á útköll heldur einnig á rannsóknir mála sem geti tafist.

Margir lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land boðuðu forföll vegna veikinda í morgun. Fjármálaráðuneytið sagðist í gær hafa heimildir fyrir því að lögreglumenn ætluðu að boða veikindi í morgun og í nótt og að það væru ólögmætar verkfallsaðgerðir.

Frétt mbl.is: Mikil veikindi meðal lögreglumanna

Gunnar Rúnar segist ekki vita hver staðan verði í nótt en að hann vonist til þess að hún verði betri en nú í morgun.

Samkvæmt heimildum mbl.is hafa yfirmenn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu mannað bíla í neyðarútköllum. Gunnar Rúnar kvaðst ekki hafa yfirsýn yfir það en sagði að ljóst væri að yfirmenn væru jafnframt lögreglumenn og það hefði áður komið fyrir að þeir færu í útköll. Hann gerði ráð fyrir að þeir myndu gera það að þessu sinni ef þörf krefði.

Það segi sig sjálft að þegar margir lögreglumenn séu fjarverandi hafi það áhrif á störf lögreglunnar. Hann segist hafa upplýsingar um að fleiri lögreglumenn en þeir sem sinni útköllum hafi boðað forföll, þar á meðal rannsóknarlögreglumenn. Það geti haft áhrif á rannsóknir mála og valdið töfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert