Hálfsannleikur hjá Isavia

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis. mbl.is/RAX

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir það hálfsannleik hjá Isavia að 545 milljónum króna verði varið til viðhaldsframkvæmda á innanlandsflugvöllum í ár. Um síðustu mánaðamót hafi upphæðin numið 230 milljónum. Annað sé einfaldlega áætlun. 

Fjárlaganefnd Alþingis fundaði í dag um fjárhagsmál Isavia. Björn Óli Hauks­son, for­stjóri Isa­via, sat m.a. fyrir svörum nú síðdegis. 

„Staðan í innanlandsmálunum er sú, að ég var með réttar upplýsingar þegar ég lét hafa það eftir mér að það væri ekki nærri verið að nota allt það fjármagn til uppbyggingar og viðgerða á flugöllum á þessu ári,“ segir Vigdís í samtali við mbl.is.

Þann 30. september sl. hafi 230 milljónir verið varið til viðhalds og uppbyggingar. Sú tala hafi lítið breyst síðan þá. 

Viðhaldsþörfin í heild 600 milljónir

Viðhaldsþörf flugvallakerfisins í heild er um 600 milljónir kr. í venjulegu árferði, að því er segir í samantekt Isavia um viðhaldsframkvæmdir á innanlandsflugvöllum frá árinu 2008, sem var birt á vef félagsins í gær. Við þá fjárhæð bætist nýframkvæmdir, svo sem lenging flugbrauta, stækkun flughlaða, nýr flugleiðsögubúnaður og fleira. 

Isavia áætlar að 545 milljónir fari í slíkar framkvæmdir í ár.

Vigdís tekur fram, að þarna sé um áætlun að ræða. Ekki sé búið að ráðstafa þessu fjármagni og því sé þetta „hálfsannleikur“ hjá Isavia. 

Vigdís segir að Isavia hafi bent á, að síðasta ár hafi aðeins 182 milljónir króna fengist til slíkra framkvæmda og að árið hafi verði það allra slakasta hvað þetta varðar.

„Samt eru þeir með inni í þessum tölum núna [árið 2015] 45 milljónir frá því i fyrra. Af hverju var þeim ekki ráðstafað í fyrra, fyrst að það er verið að kvarta yfir því að það var svona lítið fjármagn lagt í viðhald innanlands,“ spyr Vigdís.

Tölur settar í jákvætt samhengi

„Þannig að af þessum 545 milljónum eru 50 milljónir sem er ekki farið að hreyfa varðandi flughlaðið á Akureyri. Það eru tæpar 50 milljónir sem eru færðar á milli ára,“ segir Vigdís og bætir við að Isavia sé þarna að setja tölur í jákvætt samhengi. 

Eins og staðan sé í dag, þá sé búið að leggja 230 milljónir í nauðsynlegt viðhald á flugvöllum á landsbyggðinni. „Hitt eru áætlanir eða framvirkir samningar sem á eftir að vinna og fara í.“

Þá segir hún, að það megi búast við að hluti fjárins verði fluttur yfir á næsta ár. 

Isavia segir í fyrrgreindri samantekt, að ónýttar fjárveitingar til framkvæmda og viðhalds séu samkvæmt ákvæði þjónustusamnings innanríkisráðuneytis við Isavia færðar milli ára, enda séu þær í öllum tilfellum ætlaðar tilgreindum verkefnum á flugvöllum ríkisins.

„Algengt er að heimildir til framkvæmda fáist ekki fyrr en langt er liðið á árið og þá næst þá oft ekki að ljúka við framkvæmdir á því ári. Sem dæmi má nefna að samningur um framkvæmdir og viðhald ársins 2015 var undirritaður í júní 2015 og gátu þá útboð vegna verkefnanna  fyrst hafist,“ segir í samantektinni.

Þýðir ekkert að hóta því að loka flugvöllum

„Það verður að ráðstafa þessu því þörfin er svo rosalega brýn. Það þýðir ekkert að sitja á fénu, fara ekki í framkvæmdir og hóta svo að loka flugvöllum á næsta ári, eins og á Húsavík,“ segir Vigdís og bætir við að það sé skrýtið verklag.

Aðspurð segir Vigdís að málinu sé ekki lokið og að fleiri fundir verði haldnir fram að jólum varðandi málefni innanlandsflugs.

Hún segir að það sé óviðunandi að Isavia sé að hóta því að loka flugvöllum úti á landi. „Samkvæmt lögum á Isavia að sjá til þess að innanlandsflugið sé í lagi.“

Innanlandsflugvallakerfið er í eigu ríkisins og Isavia sér um daglegan …
Innanlandsflugvallakerfið er í eigu ríkisins og Isavia sér um daglegan rekstur þess í samræmi við þjónustusamning við innanríkisráðuneytið. mbl.is/Árni Sæberg
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, sat fyrir svörum á fundinum.
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, sat fyrir svörum á fundinum. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert