Taki upp kolefnisgjald núna

Kolefnisgjald var tekið upp á Íslandi árið 2009 en var …
Kolefnisgjald var tekið upp á Íslandi árið 2009 en var lækkað um 1% í fyrra.

Rétti tíminn til að leggja á kolefnisgjald til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er núna, að mati Christine Lagarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hvatti hún ríkisstjórnir heims til að taka frekar upp kolefnisgjald en að notast við markað með losunarheimildir eins og ESB hefur gert.

Lagarde lýsti þessu yfir við upphaf ársfundar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans sem nú stendur yfir í Líma í Perú. Losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum eru í brennidepli alþjóðasamfélagsins í aðdraganda loftslagsfundar Sameinuðu þjóðanna í París í desember. Þar stendur til að ná samkomulagi um að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Kolefnisgjald myndi ekki aðeins hjálpa til við að draga úr losun heldur myndi það sjá ríkisstjórnum heims fyrir fjármunum sem þær þurfa nauðsynlega á að halda eftir að hafa gengið á varaforða sína eftir mörg mögur ár í efnahagsmálum heimsins, að því er segir í frétt ástralska ríkisútvarpsins ABC.

OECD lagði til hækkun gjalda á jarðefnaeldsneyti á Íslandi

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði til í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær að íslensk stjórnvöld felldu niður græna skatta á bíla og eldsneyti.

Í skýrslu OECD um árangur Íslands í umhverfismálum sem kom út í fyrra kemur hins vegar fram að kolefnisgjald og skattar á bensín, dísilolíu og olíu til upphitunar séu almennt lægri hér á landi en hjá öðrum Norðurlöndum. Með því að hækka gjöldin og láta þau ná til fleiri eldsneytistegunda eins og steinolíu og kola væri hægt að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum og öðrum mengunarvöldum.

Þá var lagt til í skýrslunni að skattar og gjöld á dísilolíu ætti að hækka til jafns við bensín þar sem að bruni á henni ylli hættulegri staðbundinni loftmengun.

Kolefnisgjald var tekið upp á Íslandi árið 2009 í tíð síðustu ríkisstjórnar en það er innheimt af fljótandi jarðefnaeldsneyti eins og gas- og dísilolíu, bensíni, flugvéla- og þotueldsneyti og brennsluolíu. Núverandi ríkisstjórn lækkaði kolefnisgjaldið hins vegar um 1% á síðasta ári.

Christine Lagarda, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Christine Lagarda, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert